154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

Nám í hamfarafræðum á háskólastigi.

[11:12]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegur forseti. Íslendingar hafa í gegnum aldir mátt þola búsifjar vegna eldgosa, náttúruhamfara og náttúruvár sem í raun hefur verið hluti af daglegu lífi landsmanna. Í móðuharðindunum 1783, sem komu til vegna Skaftárelda, féll fimmti hver maður eða 10.000 Íslendingar og 75% búfjár á landinu og 50% af öðrum bústofni. Í skýrslu Tómasar Jóhannessonar um náttúruhamfarir á Íslandi kemur fram að dauðaslys af völdum náttúruhamfara síðustu 100 árin hafi ótvírætt verið af völdum sjóslysa og heildarfjöldi þeirra sem fórust á síðustu öld yfir 4.000 manns. Á sama tímabili fórust 196 manns í snjóflóðum, skriðum og jarðskjálftum á landinu. Efnahagslegt tjón var verulegt í eldgosinu á Heimaey 1973 og í snjóflóðum á næstu áratugum á eftir urðu að auki sárir mannskaðar á Neskaupstað, Patreksfirði, Súðavík og Flateyri. Á síðustu árum höfum við upplifað náttúruhamfarir á Reykjanesskaga og flutning fólks og atvinnulífs frá Grindavík. Allar þessar hamfarir hafa áhrif á þjóðarhag og tilfinningalegar afleiðingar. Náttúruvá snýst ekki eingöngu um náttúruleg ferli heldur snertir hún öll svið samfélagsins. Má þar nefna skipulag og uppbyggingu bæjarfélaga og lykilinnviða, heilsugæsluna, félagsfræði og sálfræðilega þætti, atvinnuvegina, laga-, trygginga- og viðskiptamál, raunvísindi og verkfræði.

Virðulegur forseti. Í stöðumati umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins á náttúruvá á Íslandi í kjölfarið á reynslu sem stjórnvöld, viðbragðsaðilar og þjóðin hafa fengið vegna atburðanna á Reykjanesskaga er kallað eftir auknum mannauði með sérþekkingu á sviði náttúruvár, á forvörnum, eftirliti og viðbragði og aukinni menntun hjá almenningi og kjörnum fulltrúum um málaflokkinn. Nám í hamfarafræðum er efling á sérþekkingu og valdefling viðbragðsaðila.

Virðulegur forseti. Framsögumaður kallar eftir viðbrögðum ráðherra við þessum stóru áskorunum. Jafnframt er spurt hvort vel úthugsað og útfært þverfaglegt meistaranám á háskólastigi í hamfarafræðum sé ekki nauðsynlegur hluti af lausninni. Hér er lagt til að þverfaglegt meistaranám í hamfarafræðum verði tekið upp á Íslandi, jafnvel þvert á háskóla, og samfara því sértækt nám fyrir nemandann sem velur sér vettvang innan þverfaglegs umhverfis. Náttúrulegir atburðir verða að vá ef maðurinn eða innviðir sem hann treystir á verða fyrir tjóni af völdum atburðarins, hvort sem það er vegna skammtímaatburða eða langvarandi ástands. Námið þarf því að vera sett upp þannig að það byggi upp og auki þekkingu og skilning á þeim náttúrulegu samfélagsfræðilegu ferlum og atburðum sem geta valdið vá og samspilinu þar á milli.

Ef vel tekst til mun meistaranám í hamfarafræðum byggja upp þekkingarsamfélag sem mun ná langt út fyrir hefðbundið form háskólanáms, bjóða upp á nýja nálgun á faglegu samstarfi og samvinnu og veita íslensku háskólasamfélagi þann möguleika að verða frumkvöðull í menntun og þjálfun framtíðarstarfsmanna á sviði náttúruvár. Starfshópurinn sem gerir tillögu um námið þarf að vera skipaður breiðfylkingu sérfræðinga á öllum sviðum náttúruvár, hafa sameiginlegan heilsteyptan skilning á uppsetningu náms af þessu tagi ásamt þekkingu og reynslu í því að takast á við náttúruvá. Best væri ef starfshópurinn væri skipaður sérfræðingum með alþjóðlegt orðspor og viðurkenningu á sínu sviði.

Virðulegi forseti. Ég spyr því ráðherra eftirfarandi spurninga: Er ráðherra reiðubúinn að skipa starfshóp innlendra og erlendra náttúruvársérfræðinga til að undirbúa slíkt nám og kanna þverfaglegan grunn fyrir slíku námi á Íslandi?

Í öðru lagi: Á næstu öldum stöndum við frammi fyrir aukinni eldgosavá á Reykjanesskaga, auk vár frá öðrum eldsumbrotasvæðum og veður- og umhverfistengdri vá við og á landinu. Hvernig sér ráðherra hlut sértæks og þverfaglegs framhaldsnáms í hamfarafræðum auka almennan náttúruvártengda þekkingu og hæfni í landinu?

Í þriðja lagi: Nám í hamfarafræðum getur orðið ein af hátækniútflutningsvörum íslenskra háskóla. Sér ráðherra fyrir sér að skapa það umhverfi fyrir slíkt nám að það geti orðið að tekjulind fyrir háskólana?