154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

Nám í hamfarafræðum á háskólastigi.

[11:25]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um nám í hamfarafræðum á háskólastigi. Í hamfarafræði er lögð áhersla á umfjöllun og umræður um ríkjandi ógnir í samfélaginu, varnir og viðbrögð. Námið fjallar m.a. um nýtingu innviða og auðlinda og setningu regluverks til að styrkja varnir gegn öryggisvá á borð við náttúruhamfarir og gera aðilum betur kleift að koma á almannavörnum þegar þörf er á. Við búum í landi íss og elda og því komin með þekkingu í viðbrögðum við hamförum. Það fylgir því að búa í slíkri nálægð við náttúruna og þær auðlindir sem landið gefur. Margt höfum við lært bæði af sögunni og kynslóðir hafa flutt með sér mikilvæga þekkingu sem við verðum að virða og skrá, miðla því áfram í formi þekkingar og þróa viðbrögð við yfirvofandi vá eins og hvernig við höldum áfram eftir hamfarir því það skiptir svo miklu máli. Það er talað um að áföll erfist og því er það lýðheilsumál hvernig við spilum úr áföllum. Það eru líka hamfarir á borð við heimsfaraldur og bankahrun sem eru ógn og við verðum að kunna að bregðast við þeim. Eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra þá hefst nám í haust við Háskólann á Bifröst sem býður upp á B.A.-gráðu í öryggisfræðum og almannavörnum og meistaragráðu í áfallastjórnun. Nám þetta fellur vel að hugmyndum málshefjanda þar sem búið er að leggja grunninn að fræðslu og frekari öflun þekkingar um hamfarir og viðbrögð okkar við þeim. Verið er að auka þekkingu samfélagsins á náttúruvá og hvernig bregðast skuli við henni hverju sinni með námsleið af þessu tagi.

Virðulegi forseti. Ég tek heils hugar undir með málshefjanda að hér er um að ræða námsleið sem samfélagið getur notið góðs af. Aukin þekking á almannavörnum og fyrirbyggjandi aðgerðum varðandi hamfarir getur skipt sköpum í því hvernig við aðlögum okkur að náttúrunni því henni stjórnum við ekki. Við eigum að bera virðingu fyrir henni.