154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[12:53]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hann fór svolítið víða, spurði hér í upphafi hvað mér þætti um þetta mál, hvort þetta væri til marks um að ríkisstjórnin væri hálf orkulaus. Auðvitað er það þannig og kannski birtist það okkur ágætlega í þessum þinglokum þar sem ríkisstjórnin og ríkisstjórnarstjórnarflokkarnir geta ekki einu sinni sjálf komið sér saman um hvaða mál eigi að afgreiða þar. Orkuleysið birtist líka í því að stjórnarliðar taka ekki einu sinni þátt í umræðu um EES-innleiðingarmál í 3. umræðu um þau. — Nei, nú er ég að grínast.

En varðandi orkuskortinn almennt og álið skulum við líka hafa það í huga að það er alltaf talað eins og einhvern veginn sé nánast við stóriðjuna að sakast að við séum í vandræðum þegar kemur að ójafnvægi á orkumarkaði. En við skulum líka muna að þessi mikla orkuuppbygging sem hefur átt sér stað á Íslandi var í raun drifin áfram af stóriðjuuppbyggingu. Það var þannig sem við fengum lán á góðum kjörum og gátum farið í allar þessar miklu framkvæmdir. En nú þarf einmitt að gæta að ákveðnu jafnvægi, að vera ekki að skuldbinda okkur um of þegar kemur að sölu á orku til stórnotenda, heldur tryggja að heimilin og lítil og meðalstór fyrirtæki og grunnþjónusta hafi forgang að orkunni. Það eru mjög afmörkuð skref sem er verið að stíga í þessu frumvarpi í þessu skyni, að þessu markmiði. Og svo voru önnur skref sem átti að stíga með frumvarpi sem var hérna til mikillar umræðu í kringum áramótin en dagaði svo uppi. Þetta er alltaf (Forseti hringir.) ákveðinn bútasaumur í staðinn fyrir að það verði bara sett ný heildarlög (Forseti hringir.) um raforkumál sem taka þá mið af m.a. þeim skuldbindingum sem við höfum undirgengist (Forseti hringir.) og þessum almannahagsmunum sem hér er verið að reyna að tryggja (Forseti hringir.) og við erum að deila um hvernig sé best að tryggja.