154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[13:47]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Ingu Sæland fyrir góða ræðu þar sem hún kom inn á alveg þó nokkra mikilvæga punkta. Þar sem ég hef bara eina mínútu, jafnvel þótt það standi tvær hér …

(Forseti (LínS): Tvær.)

— Tvær, ég hef bara tvær, en ég ætla að byrja á punktum hv. þingmanns um flutningstapið. Hún kom inn á að árlega töpum við u.þ.b. 30% af raforku sem nær ekki að skila sér til notenda. Hins vegar vildi ég líka benda á að raforka vegna flutningstaps er boðin út fjórum sinnum á ári í lokuðu útboði þar sem markaðsaðilar hafa tækifæri á að kaupa orkuna þannig séð aftur sem hefur að tapast. En slíkar aðgerðir duga mögulega skammt til þess að tryggja raforkuöryggi almennings þar sem markaðsaðilar eru ekki endanotendur eins og t.d. heimili og smærri fyrirtæki. Þannig að ég tek bara undir með hv. þingmanni hvað varðar aðgerðir sem duga skammt.

Síðan langaði mig líka að staldra við punkt hjá hv. þingmanni varðandi vangetu þessarar ríkisstjórnar. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni þegar kemur að vangetu þessarar ríkisstjórnar til að tryggja raforkuöryggi almennings. Við sjáum bara af þessu frumvarpi sem við erum að ræða akkúrat núna að það er verið að boða skammtímalausnir. Þetta eru skammtímalausnir í formi markaðsinngripa sem er fyrst og fremst bara skítamix úr öðru frumvarpi sem var lagt — ég fer ekkert út í það. En mig langaði bara að velta því fyrir mér hvort hv. þm. Inga Sæland væri sammála mér að um að hér væri að leggja til skammtímalausnir sem duga skammt og eru í formi markaðsinngripa í stað þess að grípa til framtíðarsýnar, framtíðaraðgerða. Og ef þörf er á slíku að mati hv. þingmanns, hvers konar aðgerðir væru best til þess fallnar að tryggja raforkuöryggi almennings til lengri tíma?