154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[13:54]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir hennar yfirgripsmiklu ræðu hér. Það er af nægu að taka í þessari ræðu. Mig langaði kannski byrja á orðum hennar þegar hún nefndi að við framleiddum næga orku og aðeins að velta vöngum yfir því, af því að það er greinilega verið að rífast ansi mikið um það hvort við séum að framleiða næga orku. Við heyrum það bara á þeim sjónarmiðum sem koma frá ríkisstjórninni, þau eru ekkert sammála um það. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins halda því fram að við eigum ekki næga orku og þurfum að framleiða meira. Hvar liggur þá vandinn? Hvað finnst þingmanninum um það? Hvað getum við gert? Hún nefnir dreifikerfið en ég er ekkert viss um að dreifikerfið eitt og sér dugi þegar við erum að heyra hjá stórnotendum sem eru nánast bara beintengdir við þessa orku — og þar að auki er ekki stórt og mikið dreifikerfi til. Erum við að fara að setja þak t.d. á uppbyggingu stóriðju á Íslandi? Ætti það að vera markmið okkar að stöðva hreinlega bara stóriðjuframkvæmdir á Íslandi? Láta það sem komið er duga eða sjáum við einhverja möguleika á því að gera þetta með öðrum hætti? Ég þekki það bara sjálfur með Suðurnesjalínu tvö hvað hún hefur komið í veg fyrir mikla og metnaðarfulla uppbyggingu atvinnufyrirtækja á Suðurnesjum. En þarf ekki meira að koma til?