154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[14:00]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvar. Ég gleymdi að nefna það við hann áðan þegar hann nefndi stóriðju og hvort við værum eitthvað að bremsa af eða kærðum okkur ekki um frekari uppbyggingu hvað það varðar: Nei, það höfum við aldrei nokkurn tímann sagt. Við segjum bara einfaldlega: Ef við þurfum að virkja meira þá er það út af því við þurfum á því að halda og þá gerum við það af því að við höfum burði til þess.

En hvað lýtur að fiskmörkuðunum þá tek ég heils hugar undir með hv. þingmanni. Það er hinn eini sanni mælikvarði á verðmæti sjávaraflans, þ.e. allur fiskur hreinlega á markað. Við í Flokki fólksins erum einfaldlega þar. Og já, það sem er það sorglega við það er að ef við þurfum að fara að setja tímabindingu á þessu inn í stjórnarskrá þá erum við um leið búin að viðurkenna ákveðinn eignarrétt á auðlindinni. Ég vil aldrei viðurkenna að mönnum sé heimilt að láta auðlindina okkar ganga til niðja sinna, í erfðir. Þá erum við í rauninni komin með viðurkenningu á eignarréttinum. Það er nákvæmlega þangað sem við erum í rauninni að stefna og verðum að tryggja það í stjórnarskrá að sjávarauðlindin sérstaklega, það verður að vera tekið fram, og náttúrlega raforkan okkar og allar þessar auðlindir skuli vera tryggðar í stjórnarskrá til allrar framtíðar.