154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[14:18]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Ingibjörgu Isaksen fyrir að taka þátt í þessari umræðu. Hún er eini stjórnarþingmaðurinn á listanum. Ef ég væri með hatt þá tæki ég hann ofan fyrir henni fyrir það að láta sjá sig. Maður er eiginlega bara hissa þegar stjórnarþingmaður sést hérna í umræðu núorðið. Mig langar að velta því upp varðandi þessi orkumál, ef ég finn einhverja samlíkingu þá finnst mér ríkisstjórnin vera orðin hálforkulaus. Orkumálin eru einhvern veginn í algjörum ólestri og orkan er orðin svo lítil að það má eiginlega segja að bæði orkumálin og ríkisstjórnin séu komin í hálfgerða örorku, eins og maður myndi segja, og það eru komnar skerðingar inn í þessa orku. Þetta er farið að vera eins og í almannatryggingakerfinu. Þetta er svona samsvarandi; það er orkuleysi og það eru skerðingar og ég bíð bara eftir því hvenær keðjuverkandi skerðingar koma inn í þetta. En þetta þarf ekkert að vera svona. Ef landsnetið eða dreifikerfið væri í lagi þá værum við með alveg gífurlega orku. Ég spyr mig: Nú á þessum sjö árum sem þessi ríkisstjórn er búin að starfa, hvers vegna í ósköpunum hefur t.d. ekki verið tekið á því? Síðan kom hún inn á að stóriðja gæti selt aftur inn á kerfið og ég spyr mig þá: Á hvaða verði? eins og hún spurði sjálf. Ég veit ekki hvort hún sæi það fyrir sér í sjálfu sér hvort þeir gætu þá selt það á tvöfalt dýrara verði eða meira eða hvort þeir ætli að selja þetta á sama verði, hvort það væri hægt að setja það þannig inn. Ég veit ekki hvernig það yrði í framkvæmd. En síðan hitt, hvað henni finnst um þessa uppbyggingu í orkukerfinu, þessa milliliði sem eru komnir inn í þetta kerfi, hvort henni finnist ekki að það sé kominn tími til á að taka þetta kerfi í heild sinni og koma því í lag þannig að þetta sé ekki eitthvert gróðatæki fyrir markaðinn.