154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[14:23]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég er alveg sammála henni í því að þetta er mjög mikilvægt mál. En ég spyr mig, ég er farinn að efast um — hræsnin hjá okkur í loftslagsmálum er farin að stinga mig alveg svakalega vegna þess að það segir sig sjálft að ef við erum að brenna olíu til að framleiða fiskafurðir hjá fyrirtækjum þá erum við komin í svolítið skrýtna stöðu. Eins og ég sagði hér áðan í ræðu finnst mér nær að stoppa álframleiðslu heldur en matvælaframleiðslu, hvort sem það eru matvæli fyrir dýr eða menn. Það er orðið svolítið skrýtið að við skulum vera í þessari stöðu, ekki einu sinni heldur aftur og aftur. Og svo spyr ég hv. þingmann: Hvaða lausn sér hún t.d. í því ófremdarástandi sem Vestfirðingar búa við, vegna þess að núna er t.d. bæði línuvandamál hjá þeim og líka virkjununarvandamál af því að þeir hafa ekki orkuna? Það hlýtur að vera forgangsmál. Ég spyr: Hvernig sér hún fyrir sér að leysa það mál?