154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[15:35]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Virðulegur forseti. Það er virkilega ánægjulegt að taka þátt í þessari ágætu umræðu um þetta ágæta mál sem hefur verið í vinnslu í atvinnuveganefnd í allan vetur. Mér telst svo til að ég sé stjórnarliði nr. 2, fyrir utan framsögumann, sem tekur hér til máls. Síðan sé ég að hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson er á leiðinni upp sömuleiðis. Þannig að þingmenn Norðausturkjördæmis láta sig málið varða, sem er jákvætt og sýnir svo sem líka hversu öflugir þingmenn í því kjördæmi eru og sömuleiðis mikilvægi þess kjördæmis fyrir landið allt. En nóg um það.

Margt áhugavert hefur komið fram í þeirri umræðu sem hefur átt sér stað í dag og í gærkvöldi sem snýr að því sem þetta mál fjallar um, þ.e. hvernig við tryggjum forgangsraforku til smærri notenda, þá heimila og minni fyrirtækja og mikilvægra samfélagslegra innviða. Í umræðunni höfum við sömuleiðis farið inn á það hvort hér sé orkuskortur, hvernig við horfum til framtíðar o.s.frv. Í raforkuspá sem raforkuspárnefnd hefur gefið út kemur alveg skýrt fram hver orkuþörfin til framtíðar gæti orðið og það liggur alveg fyrir að við þurfum að bæta þar í. Sömuleiðis hafa orkufyrirtæki, Samorka og fleiri, bent á það hvað fram undan er. Við sjáum t.d. uppbyggingu sem snýr að landeldi. Þar erum við sömuleiðis að tala um mjög orkufrekan iðnað og þar vitum við að vantar orku. Við erum með þennan markað uppbyggðan þannig að stórnotendur eru að taka um 80%, 75–80% af þeirri orku sem framleidd er hér. Smærri notendur eru með 5% og síðan eru þarna aðilar og stærri fyrirtæki, sjávarútvegur og landbúnaður sömuleiðis, sem eru með á bilinu 15–20% af heildarnotkun raforku.

Þegar við horfum til þess hvernig við ætlum að forgangsraða til framtíðar — ég hef áhuga á að koma inn á það í þessari ræðu því að það hefur ekki komið fram áður svo að ég viti hvernig við sjáum framtíðarmúsíkina fyrir okkur. Við komum hér inn á það að við vissar aðstæður verði stórnotendum heimilt að selja til baka til kerfisstjóra, þ.e. Landsnets, og Landsnet getur síðan ráðstafað raforkunni áfram. Við komum inn á það hvaða afleiðingar það getur haft o.s.frv. Það er eitt af því sem við þurfum að velta fyrir okkur og það hefur komið fram í ræðum hjá nokkrum hv. þingmönnum sem ég hef tekið eftir; hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson kom inn á það og sömuleiðis komu hv. þingmenn Ingibjörg Isaksen og Bergþór Ólason inn á það í mjög góðri ræðu hér áðan hvað hugsanlega gæti gerst.

Mín sýn á það eins og staðan er í dag, á meðan markaðir á áli eru t.d. það sterkir, er sú að þá sé svo sem engin hætta á því að þetta hafi áhrif á það, að álfyrirtæki fari að selja til baka á hærra verði en þau hafa keypt orkuna. Þau hafa meira út úr því, eins og staðan er í dag, að framleiða ál fyrir þá orku sem þau hafa keypt af vinnsluaðila. En við sjáum ekki alltaf til til lands þegar við horfum til framtíðar þannig að við þurfum að velta því fyrir okkur, og það hefur komið fram hér í dag, hvort við gætum rammað þetta betur inn, haft þetta skýrara. Ég held að það sé svo sem ágætt að velta því vel fyrir sér.

Ég ætla að staldra aðeins við þessi stærri fyrirtæki sem ekki flokkast undir stórnotendur. Þá ætla ég að horfa til sjávarútvegs og sömuleiðis landbúnaðar, en fyrst og fremst sjávarútvegsins í þessu tilliti. Ég er þeirrar skoðunar að við séum komin á þann stað að við þurfum að velta því alvarlega fyrir okkur að skilgreina hvert orkan eigi að fara. Við erum að fara í ákveðna framleiðslu á hráefnum, grunnhráefnum, sem við byggjum velferð okkar sem þjóð á, og höfum gert í árhundruð, þ.e. hvernig við nýtum auðlindina og þá er ég að tala um sjávarauðlindina í þessu tilliti. Hvernig sjáum við það fyrir okkur? Við vitum vel að þessi iðnaður fer alltaf halloka, t.d. í samkeppni við gagnaver, þegar kemur að því að bjóða í raforku, sem er svo sannarlega af skornum skammti. Þurfum við að fara þá leið að við skilgreinum það að þessi orka eigi að fara þarna? Nú verð ég að viðurkenna, virðulegi forseti, að ég er ekki klár á því hvernig þetta rúmast innan hins góða orkupakka þrjú, sem hefur sömuleiðis komið til tals hér, hvort þetta sé mögulegt. En mér finnst liggja í hlutarins eðli að við verðum að horfa til þess hvernig við verjum þessi fyrirtæki til framtíðar þegar kemur að því að hér verði virkur markaður sem stefnt er að og sömuleiðis með raforku. Eins og staðan er í dag getum við bara verið nokkuð róleg með þetta. Þeir samningar sem eru til staðar halda. Það hefur svo sem verið gerð tilraun hér í vetur, Landsvirkjun óskaði eftir því við stórnotendur að kaupa til baka magn sem var innan samninga að einhverju leyti, en því var ekki svarað. Eins og komið hefur fram þá vildu menn nýta orkuna til þeirrar framleiðslu sem orkan var ætluð í. En í því samhengi, af því að við tölum um að við ætlum að verja heimili einstaklinga, og það er bara hluti af lífsgæðum þjóðarinnar að ganga að orku á góðu verði, þá verðum við sömuleiðis að horfa á þessa aðila. Þetta hefur sömuleiðis komið fram hér í umræðu sem snýr að fjarvarmaveitum og því öllu saman.

Við þurfum einnig að horfa til þess hvernig við getum dregið úr notkun og brennslu á jarðefnaeldsneyti einungis til að framleiða orku. Okkur greinir oft á um það hvort við þurfum að virkja meira eða hvort við eigum að fara betur með orkuna og nýta hana betur. Ég held að allt sem við getum gert í því hvernig við umgöngumst orkuna — við þurfum að fara í ákveðna naflaskoðun þegar að því kemur. Ég tel jú að við þurfum að nýta þá virkjunarkosti sem þegar liggja á borðinu. Við þurfum sömuleiðis að fara að ganga um raforkuna af meiri virðingu en við gerum í dag. Við erum hálfgerðir orkusóðar þegar kemur að nýtingu á rafmagni eða nýtingu á heitu vatni. Það dettur ekki nokkrum lifandi manni í hug að standa í hálftíma undir heitri sturtu erlendis, en það gerum við hér alveg hiklaust oft á dag. Við erum bara alin svona upp. En því miður erum við komin á þann stað að við verðum að fara að endurskoða það hvernig við umgöngumst orkuna.

Sömuleiðis er ákveðin sóun í raforkukerfinu sem við leggjum allt okkar traust á. Flutningskerfið er því miður ekki til þess fallið enn sem komið er að nýta vel þá orku sem framleidd er og við þekkjum það vel að ef orku vantar á suðvesturhorninu þá getum við ekki flutt orkuna með góðu móti að austan, frá Kárahnjúkum, vegna þess að flutningskerfið okkar er ekki tilbúið til þess. En sem betur fer þá hefur Landsnet verið á fullu við að byggja upp sínar línur. Við þekkjum það í Norðausturkjördæmi að þar hefur mikið verið gert með Hólasandslínu og fleiri línur, að tengja við línuna frá Kárahnjúkum og alla leið til Akureyrar og sömuleiðis varðandi Þeistareyki.

Þarna er stór þáttur sem við getum komið inn á, hvernig við nýtum alla þá orku sem við framleiðum, að uppistöðulónin okkar skili af sér orku áður en þau renna til sjávar. Það voru nú t.d. einhverjar tölur sem ég man ekki, virðulegur forseti, sem töpuðust við Kárahnjúka, sem hefði verið hægt að nýta á suðvesturhorninu ef flutningskerfið hefði borið það. Við þurfum sömuleiðis að horfa til þess að dreifikerfi mjög víða í hinum dreifðari byggðum þarfnast algerrar yfirhalningar og endurnýjunar en vissulega hefur mikið verið gert undanfarin ár og sérstaklega í kjölfar aðventustormsins ársins 2019.

Síðan kemur að nýtingu glatvarma og er komið ágætlega inn á það í frumvarpinu hvernig við getum nýtt hann. Það er því mikið til af orku í kerfinu sem við erum ekki að nýta og þar getum við gert betur. En ég ítreka það, virðulegur forseti, að við þurfum að nýta þá virkjunarkosti sem þegar eru á teikniborðinu, ef við getum orðað það svo, því að orkuþörfin samkvæmt raforkuspá kemur til með að aukast verulega á næstu árum hvort sem það er við rafvæðingu bílaflotans eða varðandi öll þau tækifæri sem fram undan eru í iðnaðar- eða matvælaframleiðslu, þá á ég við landeldi. Við þurfum að horfa til þess.

Það hefur verið mjög áhugavert í vetur að fara inn í þennan heim sem við hv. þingmenn í atvinnuveganefnd höfum verið að kafa í í vetur, þ.e. heim raforkunnar. Það sem er verulega athyglisvert, þegar við förum að velta þessu fyrir okkur, er hversu ógagnsær þessi markaður er. Til að geta horft til þess að hér sé einhver lifandi markaður með raforku þá þurfum við gegnsæi og það gegnsæi er ekki til staðar. Ég held að það hafi reynt verulega á hvern einasta þingmann að reyna að ná einhvers staðar áttum í því þegar við fórum að tala við alla þá aðila sem koma að framleiðslu á raforku. Upplifun okkar í atvinnuveganefnd var þannig á tímabili að við vorum ekki alveg viss hvort við værum að koma eða fara eða hvort viðkomandi aðili væri á sama landi og við eða þeir aðilar sem komu hver á eftir öðrum fyrir nefndina, slíkur var skoðanamunurinn og upplýsingarnar ekki á tæru. En eftir því sem við lærðum meira, að þetta væri bara ákveðinn skóli fyrir hv. þingmenn í atvinnuveganefnd að fara í gegnum, og eftir því sem við komumst nær og köfuðum betur ofan í þetta, þá held ég að það sé óhætt að segja að allir þingmenn, ég ætla bara að fullyrða það, í atvinnuveganefnd séu með mun skýrari og betri sýn á það sem er að gerast í þessu kerfi sem við viljum svo endilega að verði enn betra en er í dag og það verði sömuleiðis gagnsærra og meira upplýsandi.

Við verðum samt alltaf að horfa til þess að við vinnum innan ákveðins ramma sem tengist EES-hlutanum og þeim samningi og við þurfum svo sem bara að feta okkur eftir því. Ein bestu kjör Íslendinga eru að hafa aðgang að orku á hagstæðu verði. Við búum á eyju norður í hafi og við þurfum orku til að halda á okkur hita. Við þurfum sömuleiðis orku til að lýsa okkur veginn. Þetta er einn stærsti þátturinn, að ég tel, í lífskjörum Íslendinga, þ.e. sá þáttur að við séum með aðgang að ódýrri orku.

Að lokum, virðulegur forseti, vil ég segja að ég held að nefndin og framsögumaður nefndarinnar, hv. þm. Óli Björn Kárason, hafi unnið mjög gott starf við að reyna að ná utan um þetta. Þetta er búið að liggja hjá okkur frá því í haust. Málið er endurflutt. Það var afgreitt úr atvinnuveganefnd á síðasta löggjafarþingi og hefur tekið töluvert miklum breytingum. Eins og þingheimur og alþjóð veit þá var atvinnuveganefnd að vinna með ákveðið frumvarp hér fyrir jólin sem sneri að því hvernig við ættum að tryggja forgangsorkuna. Öll þekkjum við umræðuna sem kom í kjölfarið á því. Samhliða því var verið að vinna í þessu frumvarpi. Ég tel að með þeirri vinnu sem átti sér stað frá því í haust hafi nefndin náð ágætlega utan um málið. En í farvatninu frá ráðherra umhverfis- og orkumála eru fleiri frumvörp sem tengjast raforkumarkaðnum. Þau eru á leiðinni, væntanlega koma þau í haust. Það hefði vissulega verið gott að sjá eitthvað í þau í tengslum við þessa vinnu hér, sérstaklega í ljósi þess að við erum að stíga ákveðið skref sem ég heyri að hv. þingmenn vilja að menn stígi frekar varlega og horfi vel í kringum sig. Þá á ég við það skref að heimila það að stórnotendur geti selt til baka til kerfisstjóra. Ég hef mikinn skilning á því að hv. þingmenn vilji ganga hægt um gleðinnar dyr þar. Það hefur komið fram í máli nokkurra hv. þingmanna í þessari umræðu hvort ekki væri hægt að útskýra það betur hvað gæti átt sér stað þegar að þessu kemur og tek ég bara undir þau sjónarmið.

Tilgangurinn með þessu frumvarpi er fyrst og fremst að reyna að tryggja forgang á raforku, þ.e. 5% hlutann, til einstaklinga og fyrirtækja, því að það er, eins og ég sagði áður, virðulegur forseti, einn stærsti gullmolinn við það að búa hér á Íslandi, þ.e. að hafa aðgang að raforku á skynsamlegu verði. Það er, held ég, eitt af því fáa sem hv. þingmenn í þessum sal eru allir sammála um, að aðgangur að raforku til einstaklinga og heimila, eigi alltaf að vera í fararbroddi og viðkomandi aðilar eigi að geta verið sáttir í hvert einasta skipti sem þeir borga rafmagnsreikninginn. Það er náttúrlega lykilatriði að við séum ekki að ganga of langt í því. En það verða þá aðrir sem verða að bera hitann og þungann af því og þá getum við horft til þeirra stórnotenda sem hafa gert það í gegnum tíðina.

Virðulegur forseti. Ég held að ég láti þessu lokið.