154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[16:43]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir örlitla spurningu. Varðandi það hvort það eigi að virkja meira þá held ég að við ættum að byrja á því að nýta betur það sem við höfum virkjað. Það er t.d. skelfilegt að horfa til þess að fara um Austfirðina og sjá að rafmagnið úr Kárahnjúkavirkjun fer ekkert á Austfirði og þar þurfum við að vera að brenna olíu til að fá húshita og annað. Það eru einfaldlega flutningsleiðirnar. Þar væri hægt að nýta raforku betur frá virkjun sem er búin að eyðileggja landslag, búin að eyðileggja umhverfið. Ég held líka að við höfum lent í því varðandi einmitt Kárahnjúkavirkjun að þar var farið hart í umhverfið gegn virkjunarkostum í stað þess að reyna að finna einhverjar leiðir, til að finna gullinn meðalveg, til að finna leiðir sem hefðu minni áhrif. Það hefur gert það að verkum að nú er liðinn áratugur eða meira þar sem ekki hefur verið virkjað. (Forseti hringir.) Þetta ættum við að nota sem lærdóm til að kenna okkur að við þurfum að vinna saman í því að finna leiðirnar áfram.