154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[18:04]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé talsvert til í því sem hv. þingmaður sagði áðan um endursölu á orku inn á kerfið og hætturnar sem felast í þessu. Nú er það þannig að Landsvirkjun hefur einmitt leitast eftir því að fá að kaupa orku af stórnotendum í endursölu en þá hefur verðið verið svo svimandi hátt sem hefur boðist að fyrirtækið hefur forðast það í lengstu lög að taka því; margfalt heildsöluverð eins og mig minnir að það sé orðað í fréttatilkynningu frá Landsvirkjun. Það sem er að gerast hér í þessu frumvarpi er að það er í raun verið að þvinga Landsnet til að ganga til svona samninga áður en kemur til skömmtunar, því að ákvæðið sem málið snýst um fjallar um þau skref sem þarf að taka áður en kemur til íþyngjandi aðgerða á borð við skömmtun. Ég veit ekki hvers vegna maður ætti að ætla (Forseti hringir.) að eitthvað annað verði uppi á teningnum þegar Landsnet leitar eftir samningum (Forseti hringir.) við stórnotendurna en þegar Landsvirkjun gerir það.