154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[18:06]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið. Margfalt heildsöluverð sem stórnotendur krefjast er mjög eðlilegt, myndi ég telja. Þetta eru einkafyrirtæki sem eru rekin í hagnaðarskyni og þau eru að framleiða ál í hagnaðarskyni, til að selja á heimsmarkaði. Þau þurfa náttúrlega að reikna sinn hagnað inn í það og gera það sem þau geta til hins ýtrasta til að auka hagnað fyrirtækisins. Þá sjá þau sér þann leik á borði að selja orkuna á margföldu hagnaðarverði af því að samningsstaða íslenskra stjórnvalda og Landsnets er engin. Það er bara þannig. Það er búið að semja við þessi fyrirtæki um ákveðið verð til margra ára og svo er verið að biðja þau um að fara að selja okkur þetta aftur. Það sýnir vitleysuna í þessu öllu saman. Ef við ætlum að gera eins og hefur verið talað um, ég held að VG sé með þá skoðun, að það eigi að fara að skoða það að leggja niður álverið eða eitthvað svoleiðis, þá þarf það margra ára undirbúning, sennilega tíu ára undirbúning, ég veit það ekki. Þetta eru samningar til mjög langs tíma. Það er ekkert hlaupið að því. En það er alveg augljóst mál að við erum komnir í (Forseti hringir.) algjört gjaldþrot með þessa stefnu og þessi lög munu ekki breyta því. (Forseti hringir.) Við verðum að fara að auka raforkuframleiðsluna. (Forseti hringir.) Það er það sem málið snýst um. Það er eina leiðin út úr þessum ógöngum.