154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[18:07]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni fyrir góða ræðu þar sem hann fór yfir gríðarlega mörg atriði. Það eru nokkrir hlutir sem ég staldraði við og langar að hv. þingmaður skýri aðeins nánar fyrir mér. Í ræðunni spurði hv. þingmaður hvers vegna við værum að taka upp regluverk Evrópusambandsins sem varðar raforkumarkaðinn og bara raforku yfir höfuð. Nú er hv. þingmaður lögfræðingur og löglærður og ég heyrði hann vera að vísa til ákvæða EES-samningsins sem eru m.a. lög nr. 2/1993. Þar er skýrt tekið fram að raforkumarkaður og raforkumál falla undir gildissvið EES-samningsins og þar af leiðandi er þetta innleiðingarskylt. Hann kom einnig inn á þriðja orkupakkann og sum atriði sem eiga ekki við um okkur þar og við hefðum mögulega ekki átt að taka upp. Ég vil bara benda hv. þingmanni á að við fengum ýmsar undanþágur þegar við innleiddum þriðja orkupakkann í íslensk lög. Hins vegar langaði mig aðeins að staldra við og ég er eiginlega sammála hv. þingmanni þegar hann segir að það sé ýmis löggjöf sem eigi ekki við á íslenskum raforkumarkaði. En merki um það má einnig sjá á þeirri gjá sem hefur skapast í raforkulöggjöf Evrópusambandsríkjanna og EFTA-ríkjanna. Til að mynda var þriðji orkupakkinn tekinn upp í aðildarríkjum Evrópusambandsins árið 2009, en við tókum hann upp árið 2018 eða 2019. Það sama á við um fjórða orkupakkann, hann var samþykktur í aðildarríkjum ESB 2019 en árið er 2024 og hann hefur ekki enn verið tekinn upp í EES-samninginn. Ég held því að sameiginlega EES-nefndin sé sammála hv. þingmanni þegar kemur að því að sum löggjöf Evrópusambandsins um raforkumarkað (Forseti hringir.) eigi ekki við um Ísland.

Ég ætlaði bara að spyrja hvort hv. þingmaður væri sammála mér og hvort hann hefði tekið eftir þeirri gjá sem hefur myndast í raforkulöggjöf Evrópusambandsins annars vegar og EFTA-ríkjanna hins vegar.