154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[19:05]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum hér að ræða frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum nr. 65/2003, um raforkuöryggi. Það er eiginlega stórfurðulegt að við skulum yfir höfuð vera að ræða um raforkuöryggi til heimila þegar það er bara 5% af þeirri orku sem við notum en 95% notum við í eitthvað annað og þá aðallega til stóriðju. Ég held að þetta frumvarp sé einmitt byggt á orkuleysi ríkisstjórnarinnar, hún hafi gefist upp í baráttunni við að sjá til þess að það sé til næg orka í landinu, hún hafi verið upptekin við allt annað en að tryggja raforkuöryggi og þar af leiðandi virðist þeirra eina lausn vera að reyna að tryggja öryggi heimilanna með því að leggja þetta frumvarp fram.

Það segir stóra sögu í þessu samhengi hvernig við höfum farið með málin eða réttara sagt hvernig ríkisstjórnir undanfarinna áratuga hafa komið regluverkinu þannig fyrir að það er eiginlega allt í óefni í þessum málum. Það hefur verið gengið frá virkjunum til að tryggja raforku fyrir álframleiðslu og aðra stóriðju en einhvern veginn hefur gleymst að tryggja öryggi í flutningum t.d., tryggja að flutningsnetið virki eins og það ætti að gera. Ef hægt væri að miðla orku, alveg óháð því hvaðan hún kemur, þannig að það væru engir hnökrar á því að hægt væri að koma henni þangað sem þörf er á, þá segja margir að þar sé ónýtt orka allt upp undir 30% þegar mest er. Það segir okkur bara hvað ríkisstjórnin hefur ekki verið að gera.

Ef við förum aftur í tímann — og við þurfum ekki að fara langt, við þurfum bara að fara að Læknum í Hafnarfirði, þar var byrjað að virkja. Þar kom fyrsta ljósaperan. Ég er alveg viss um að þeir sem kveiktu á þeirri fyrstu ljósaperu yrðu gáttaðir í dag ef þeir vissu hvernig staðan er í orkumálum, að við værum að leggja fram frumvarp til að reyna að tryggja að almenningur hefði forgang að orku. Það er eiginlega svolítið sorglegt ef maður fer að hugsa um það. Ég er t.d. nýkominn frá Færeyjum þar sem við vorum á Norðurlandaráðsþingi og við fengum að skoða orkumál Færeyinga. Þeir eru nú í mun verri stöðu en við Íslendingar. Þeir eru með vindmyllugarða og síðan hafa þeir verið að kynda með því að brenna olíu til orkuframleiðslu. Núna tóku þeir sig til vegna þess að þeir höfðu verið að lenda í rosalegum sveiflum frá vindmyllunum. Þeir bara settu upp nýtt orkuver, fullt af rafhlöðum og hlaða niður orku þegar mest er, þegar vindar blása, og geyma hana. Síðan eru þeir bara með tölvukerfi til að miðla inn á kerfið hjá sér þannig að það haldist alltaf í jafnvægi. Þetta hefur valdið því að þeir hafa getað dregið stórlega úr olíunotkun. Síðan eru þeir líka komnir langt á veg með að virkja sjávarföllin. Ef þeim tekst það þá verða Færeyingarnir með alveg gífurlegt orkumagn sem þeir gætu framleitt vegna þess að orkan í sjávarföllunum hjá þeim er alveg ótrúleg.

En ef við tökum annað dæmi frá Norðurlöndunum þá fékk ég að heyra þá sögu, sem mér fannst eiginlega stórfurðuleg, að Svíar væru að kaupa orku frá Noregi, syðst í Svíþjóð kæmi orka frá Noregi yfir til Svíþjóðar, færi svo norður eftir Svíþjóð og síðan seldu þeir hana aftur norðan megin yfir til Norðmanna. Þetta sýnir okkur bara, ef þetta stenst, hversu ótrúlega illa er komið fyrir orkuframleiðslunni á Norðurlöndunum og hvernig staðan fyrir heimilin þar er alveg skelfileg. Ég vona heitt og innilega að við höfum það að leiðarljósi að taka það ekki til fyrirmyndar vegna þess, eins og ég kom að hér fyrr í dag í ræðu, að það er alveg með ólíkindum að fólk sé upptekið á Norðurlöndunum við að reyna að finna út hvenær það á að setja þvottavélarnar í gang, hvenær um næturnar, hvenær það eigi að hlaða bílinn, allir að reyna að finna ódýrasta tímann til þess að gera þetta. Fyrir vikið eru eiginlega allir að elta skottið á sjálfum sér vegna þess að um leið og þeir finna rétta tímann þá koma fyrirtækin sem selja rafmagnið og hækka verðið. Þessi staða kemur vonandi aldrei upp hér en þetta gæti orðið. Ef þessir bölsýnismenn fá að ráða, sem vilja tengja Ísland í gegnum sæstreng eða rafmagnsstreng við Evrópu, þá gætum við lent í þessum málum. Ef maður horfir á þá sem hafa verið með völd hér undanfarna áratugi, fjórflokkinn svokallaðan, þá sýnist mér stefna í algjört óefni vegna þess að þeir hafa byggt upp þetta kerfi sem við erum með í dag og hafa klúðrað því svo rosalega með þessum ótrúlegu reglubreytingum.

Það sem mér finnst eiginlega merkilegast í þessu dæmi er að þetta er allt gert í þágu loftslagsins, í þágu náttúrunnar. Ég verð bara að segja eins og er, því meira sem ég kynni mér það þá er varla til meiri hræsni á bak við neitt eins og að segja að það sem þeir eru að gera sé til þess að bjarga náttúrunni. Við sjáum á margan hátt heimskuna í því. Þeir hafa t.d. í langan tíma verið að framleiða metan hérna rétt hjá, uppi í Gufunesi, á gömlu öskuhaugunum, og því var bara brennt, fór út í loftið, það var ekki nýtt í neitt, ekki til þess að framleiða nokkurn skapaðan hlut, bara brennt. Sólarhring eftir sólarhring voru þeir bara að brenna orkunni í engum tilgangi. Það sýndi okkur hversu ótrúlega vitlaust kerfið getur orðið.

Annað í þessu, sem ég rak augun í í blaði í morgun, er að þeir eru farnir að spá í að setja upp orkuver í Krýsuvík og framleiðslu á heitu vatni. Í Krýsuvík, á gossvæði. Það er mjög stutt frá Krýsuvík yfir í gossvæði, Meradali og Svartsengi. Það var meira að segja búið að spá því að það gæti farið að gjósa í Krýsuvík. En það er ekki bara þar sem á að fara að framleiða orku heldur eru líka áform um að að dæla niður CO2 og brennisteinsvetni H2S, blanda því saman þar við sjó og dæla því niður á 3 km dýpi. Þeir ætla að gera þetta í Hafnarfirði, við Krýsuvík. Hugsið ykkur, þar ætla þeir að setja þetta niður. Spáum í hvaða orku þarf til þess að gera það. Þar ætla þeir að dæla niður 3 milljörðum tonna. Setjum það í samhengi. Það eru 250.000 tonn á mánuði. Á Hellisheiði er verið að dæla niður 1.000 tonnum og það veldur jarðskjálfta. Þetta er 250 sinnum meira niður á 3 km dýpi, átta borholur. Og nú skulið þið halda ykkur fast, hverju haldið þið að þeir ætli að dæla? Jú, þeir ætla að taka vatn þarna. Hversu mikið á ári? 75 milljónir lítra og bara til að setja þetta í samhengi þá eru það 2.500 lítrar á sekúndu sem er meira en tvöfalt meira en allt höfuðborgarsvæðið notar á einu ári. Þetta er hreint vatn og í það ætla þeir að blanda CO2 og brennisteinsvetni og sprauta því þarna niður og til þess að geta það þarf mikla orku. Ég spyr mig: Verður það sett í forgang? Jú, þarna eru umhverfissjónarmið, það er verið að bjarga umhverfinu. Með því að menga hreint vatn með ógeði og dæla því niður er verið að bjarga umhverfinu. Það sem er eiginlega merkilegast við þetta er að það á að sigla með þetta CO2 og brennisteinsvetni H2S frá Evrópu til að dæla þessu niður. Við sjáum á því hversu heimskulegt kerfið getur orðið og hvað við erum ótrúlega mikið tilbúin að gera eitthvað bara fyrir peninga. Ég fór að furða mig á því af hverju Evrópusambandið væri tilbúið að borga og setja einhverja 16 milljarða, held ég, í þessa tilraunastarfsemi og ég er ekkert hissa. Ef þeir geta losað sig við mengun frá sér til Íslands, blandað henni saman við hreint vatn og dælt í jörðu þá eru þeir auðvitað alveg alsælir að losna við sitt og þá geta þeir mengað meira. Þetta er nákvæmlega eins og með þessa furðulegu mengunarkvóta sem verið er að selja. Við erum með hreina orku hér og það er skrifuð á okkur kjarnorka, kolabrennsla og alls konar. Við seljum þetta erlendis og það eru mengunarsóðar sem borga fyrir þetta og halda áfram að menga.

Ef við horfum á þetta mál þá kemur alveg skýrt fram hér að það er verið að tala um að stórnotendur geti farið að selja inn á kerfið aftur. Við vitum það öll og maður varð eiginlega yfir sig hissa þegar allt í einu voru komnir milliliðir með rafmagnið hjá manni, maður átti allt í einu að fara að hamast við að reyna að finna út hvort maður gæti fengið einhvern annan raforkukaupenda til að selja sér rafmagn, ég myndi spara mér 0,2 aura eða eitthvað á því að vera að flakka á milli. Ég spyr mig: Hver var tilgangurinn? Hvers vegna í ósköpunum gat þetta ekki bara verið eins og áður þegar við fengum bara raforku frá einu raforkuveri og borguðum? Nei, það þurfti að búa til nokkra milliliði og nú á að fara að búa til fleiri milliliði. Þetta fer að minna mann á bankastarfsemi þar sem þú mátt eiginlega ekki orðið horfa á banka án þess að þurfa að borga fyrir. Ég óttast mest að þetta sé stefnan. Það hafa heyrst þær raddir að ákveðnir aðilar séu tilbúnir að selja Landsvirkjun. Vonandi sjáum við til þess hér á þingi að það verði aldrei.

Það er ýmiss vandi sem blasir við okkur og einn vandinn hefur blasað við lengi. Sem dæmi má nefna að frumvarp þetta barst Alþingi upphaflega á síðasta löggjafarþingi, í mars 2023. Einhverra hluta vegna hlaut það ekki afgreiðslu og fór svo að það var útlit fyrir að atvinnuveganefnd þyrfti að setja hálfgerð neyðarlög síðustu jól vegna ástandsins en sem betur fer bjargaðist það fyrir horn. Frumvarp þetta á rætur sínar að rekja til þeirrar reiðileysisstefni sem hefur ríkt undanfarinn áratug um raforkumál. Sitjandi ríkisstjórn hverju sinni hefur ekki komið sér saman um hvaða virkjunarframkvæmdir skuli ráðist í nema að örlitlu leyti og hefur í rauninni forðast að taka á málum eins og nauðsyn krefur. Loks dró til tíðinda þegar rammaáætlun var samþykkt vorið 2022 en stærstu einstöku virkjunarframkvæmdir sem fjallað var um í henni hafa ekki enn hafist. Svo virðist nefnilega sem Landsvirkjun hafi verið komin svo úr æfingu við að sækja um virkjunarleyfi að það hafi gleymst að gæta að heilum lagabálki, þ.e. lögum um stjórn vatnamála. Eftir kæru til úrskurðarnefndar auðlindamála var virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar því fellt úr gildi síðasta sumar með tilheyrandi framkvæmdatöfum. Þá vakti það einnig talsverða athygli í kringum undirbúningsferli Hvammsvirkjunar að afgreiðsla Orkustofnunar á virkjuninni tók eitt og hálft ár. Það þótti mörgum ámælisverðar tafir á afgreiðslutíma, sérstaklega í ljósi þess orkuskorts sem blasir nú við þjóðinni. Enn er mikil óvissa um hvenær ráðist verður í framkvæmdir við Hvammsvirkjun að fullu. Eins og segir í grein eftir Ásbjörgu Kristinsdóttur, framkvæmdastjóra Landsvirkjunar, sem birtist á vef Landsvirkjunar þann 10. apríl síðastliðinn, með leyfi forseta:

„Nú er bara að bíða og sjá hvort þetta gangi upp. Fari svo að leyfin liggi ekki fyrir í haust verður komin upp erfið staða sem gæti frestað verkefninu um enn eitt ár. Við hjá Landsvirkjun vonum auðvitað það besta og erum tilbúin að hefjast handa.“

Þetta er staðan mörgum árum eftir að Alþingi samþykkti að virkjunin yrði byggð. Svona flókið er að byggja eina virkjun sem gefur þó ekki meira af sér en tíu smávirkjanir. Það þarf samt sem áður að taka umræðunni um orkuskort með ákveðnum fyrirvara. Eins og segir í grein sem birtist nýverið eftir Indriða H. Þorláksson í Heimildinni er almenn notkun raforku ekki nema 17% af raforkunotkun á Íslandi. Þar af nýta heimilin ekki nema rétt rúm 4%. Álverin þrjú nota 64% raforkunnar, gagnaver nota 5% og 7% raforkunnar fer í járnblendi og álþynnur. Í greininni ber Indriði saman sjávarútveg annars vegar og álframleiðslu hins vegar og bendir á að þjóðartekjur af sjávarútvegi séu mun meiri en þjóðartekjur af álframleiðslu. Ég tel þó í því samhengi nauðsynlegt að taka fram að það yrði verulegt tap fyrir þjóðarbúið ef álframleiðsla legðist af á Íslandi og það vita t.d. Austfirðingar vel. Innkoma vel stæðra fyrirtækja í smærri byggðarlögum eins og innkoma Alcoa á Reyðarfirði getur snúið við byggðaþróun á einni nóttu.

En hvað sem því líður þá er vandinn sem við stöndum frammi fyrir sá að það raforkumagn sem við framleiðum nú dugar aðeins fyrir þau fyrirtæki sem þegar starfa á Íslandi í dag. Þar liggur fyrir að ekki er til nein umframorka til aukins orkufreks iðnaðar. Þar með eru óafsakanlegar hömlur settar á vaxtarmöguleika íslenska hagkerfisins eða allt þar til þetta verkefni hefur verið tekið traustum tökum. Þá hefur vatnsbúskapur versnað undanfarin ár og vel má hugsa sér framtíðina þar sem grípa þarf til álíka skerðinga og við upplifðum í vetur og á hverju einasta ári og þá þurfum við að grípa til hinna ótrúlegustu skerðinga, eins og t.d. að loka sundlaugum og skammta orku til fyrirtækja sem þurfa sum að kaupa sér stærri olíukatla eða brenna olíu í stað þess að nota rafmagn. Breytingar í veðurfari hafa haft mikil áhrif á samfélög víða um heim og þetta virðist vera sú birtingarmynd sem mun hvað neikvæðust áhrif hafa á hagkerfi Íslands, þ.e. minni úrkoma sem leiðir til lægri stöðu í uppistöðulónum mun annaðhvort setja orkubúskap þjóðarinnar í uppnám eða þá að grípa þarf til frekari virkjunarframkvæmda til að mæta nýjum raunveruleika. Svo er vitað að vel yfir 20–30% af allri framleiddri orku komast ekki í notkun vegna þess að stjórnvöld hafa ekki sinnt því að tryggja að dreifikerfi raforku geti skilað orkunni þangað sem hennar er þörf. Þess vegna skýtur það skökku við þegar kallað er eftir frekari virkjunum. Við skulum byrja á því a.m.k. að koma þeirri orku sem þegar er framleidd á áfangastað. Vinsamlegast komið dreifikerfinu í lag strax í dag. Nýtum auðlindina áður en en við förum að hrópa um frekari framleiðslu og svo förum við í það að virkja meira. Fyrst nýtum við okkur þá orku sem framleidd er og svo förum við að bera vatnið í lækinn.

En aftur að því máli sem við nú ræðum. Það er fullljóst að það þarf að tryggja með lögum forgang almennings að raforku, sérstaklega eftir að Íslendingar fóru þá leið að innleiða markaðslögmál í raforkumálum. Hvað í ósköpunum er það? Við þekkjum fjölmörg dæmi erlendis frá þar sem almenningur hefur lotið í lægra haldi í baráttunni við sterk öfl fjármagnseigenda sem beita klækjabrögðum til að skrúfa upp raforkuverð. Eitt þekktasta dæmið er þegar fyrirtækið Enron mjólkaði Kaliforníufylki og hafði svo neikvæð áhrif á orkubúskap þess fylkis að margir benda á þá aðgerð sem ástæðuna fyrir þeirri uppstokkun sem leiddi til kjörs leikarans Arnolds Schwarzeneggers sem ríkisstjóra. Fyrirtækið Enron kom sér í markaðslega stöðu og skrúfaði svo fyrir kranann, lokaði fyrir raforku með tilbúnum afsökunum, svo sem vegna viðhaldsþarfar og frekari skorts og stórhækkaði orkuverð. Þarna var byrjun á orkukrísu og ég veit ekki betur en að við stefnum á svipaðan stað.