154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[19:35]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Já, hann er algjörlega að misskilja mig vegna þess að það sem ég er að mótmæla hérna er að það er vatnsskortur og við erum taka þarna 75 milljarða líta af hreinu vatni, 75 milljarða á einu ári. Ég myndi vilja nota þetta vatn til ræktunar úti í heimi þar sem vantar vatn frekar en að menga það og dæla því niður í jörðina. Mér finnst það alger klikkun. Ég myndi vilja nota peningana til þess að rækta skóg, gera allt til þess að koma í veg fyrir að það sé verið að eyða Amazon-skóginum. Gerum eitthvað sem skilar okkur virkilega en verum ekki að láta segja okkur að það að menga vatn með einhverju CO2 og brennisteinsvetni, H2S, sem er eiturlofttegund, skella því í hreint vatn og dæla því niður í jörðina. Hreint vatn er eitt það dýrmætasta sem við eigum. Fyrir margar þjóðir er hreint vatn bara lífsnauðsynlegt. Ég skil þetta ekki. Ég bara get ekki skilið hvernig við getum leyft okkur að menga vatn í svona tilgangi.