154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[19:39]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég horfi á þetta þannig að við erum með frumvarpi eins og þessu að fást við algjöra grunnþörf; grunnþörf fyrir heimilin, grunnþörf fyrir fólkið, grunnþörf fyrir atvinnustarfsemi. Það er eiginlega með nokkrum ólíkindum að við séum í þessari stöðu sem við erum í og það hefur ekki bara með náttúruna að gera heldur er þetta afleiðing af ákveðnu pólitísku stefnuleysi. Mér hefur fundist áhugavert að hlusta á ræður þingmanna hér sem hafa tæklað og fjallað um þetta mál á mjög breiðum grunni. En einn þátturinn er auðvitað að við erum að tala um þjóðaröryggismál þegar við lítum til þess að við erum eyja og hverjar aðstæður eru hér. Við erum rík af auðlindum, já, en við erum þó í þeirri stöðu að við erum ekki á meginlandinu þar sem hægt er að leita til granna og mér finnst þetta vera veigamikið atriði. Við erum að tala um þjóðaröryggismál.