154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[20:10]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið sitt. Ég veit að hv. þingmaður var með spurningu og ég ætla að svara henni, en fyrst langar mig að koma inn á tilskipun Evrópusambandsins um endurnýjanlega orku. Það vill svo skemmtilega til að Evrópusambandið var að uppfæra þá tilskipun, sem ég kalla RED III, og þar er kveðið á um hraðari málsmeðferð fyrir uppbyggingu endurnýjanlegra orkumannvirkja. Þar í 16. gr. f er kveðið á um, á ensku (Gripið fram í.) — já, hröðunarsvæði en líka „overriding public interest“, með leyfi forseta, þar sem er kveðið á um forgangsröðun slíkra orkumannvirkja á grundvelli þess að endurnýjanleg orkuframleiðsla telst til brýnna almannahagsmuna. Þegar ég skoðaði þetta frumvarp fyrst var ég bara: Heyrðu, þetta er alger snilld. Af hverju erum við ekki að skoða þetta? Síðan fór ég skoða þetta meira og meira — þetta var m.a. efni meistararitgerðarinnar minnar — hvers vegna, og forsendur fyrir þessum hröðunarsvæðum og fyrir þessari ofuráherslu Evrópusambandsins á aukna framleiðslu endurnýjanlegrar orku. Það er m.a. til að ná markmiðum í 1. gr. RED um verga endurnotkun aðildarríkja Evrópusambandsins, um hlutfall endurnýjanlegrar orku sem er notað og framleitt á hverju ári. Ég komst að þeirri niðurstöðu að þetta á ekki við um Ísland. Öll okkar raforka er framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum. Til að byrja með þá erum við einu sinni ekki með lögfest ákvæði líkt og er lögfest í 1. gr. RED um eitthvert tiltekið hlutfall af endurnýjanlegri orkunotkun og -framleiðslu þannig að það er ekki einu sinni stuðst við það.

Þetta er það sem ég kom inn á varðandi orkuskiptin. En nú ætla ég að svara … (JPJ: Gerðu það bara á eftir.) — Ókei. Þetta er bara rosalega áhugaverð tilskipun. Forsendur þessarar tilskipunar, forsendur þessara hröðunarsvæða og forsendur þessa forgangsröðunarákvæðis á einfaldlega ekki við um íslenska raforkuframleiðslu en við gætum að einhverju leyti horft til þessa regluverks og tileinkað okkur hröðunarsvæðin, mögulega innan nýtingarflokks rammaáætlunar, af því að málsmeðferðin tekur vissulega mjög langan tíma hvað varðar … (Forseti hringir.) — Já, ég held áfram á eftir.