154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[20:17]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar og spurningu hennar. Ég var svo æst í ræðunni minni við að koma að svo mörgum atriðum varðandi vatnatilskipunina að ég gleymdi algerlega að nefna að lausnin felst ekki bara í því að virkja meira og hún felst eiginlega ekki í því að virkja meira. Ég gleymdi hins vegar að koma inn á nákvæmlega þetta; að styrkja núverandi innviði sem við höfum til staðar, styrkja raflínurnar, styrkja afhendingaröryggi raforku m.a. í gegnum dreifiveiturnar og flutningsfyrirtækið. Þetta eru innviðir — svo ég tali aftur um Evrópusambandið og aftur um orkupakkana þá er m.a. endurskoðun á fjórða orkupakkanum í gangi akkúrat núna þar sem er lagt til að veita dreifiveitunum meira svigrúm til þess að styrkja afhendingaröryggi til almennra notenda. Með almennum notendum er átt við forgangsaðila sem eru heimili og smærri fyrirtæki. En jú, ég er algjörlega sammála því að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks hefur brugðist í þessum málum. Það er lögð svo mikil áhersla á að byggja fleiri virkjanir og koma þeim í gang. Vissulega náði núverandi hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að koma í gegn, hvað var það, þriðja eða fjórða áfanga rammaáætlunar, sem er bara flott, en það er ekki einu sinni byrjað að byggja neinn af þessum kostum og það er m.a. vegna þess að málsmeðferðarferlið, leyfisveitingarferlið er á svo ótrúlega mörgum stigum og tekur svo ógeðslega langan tíma. Ég held að við eigum svolítið erfitt með að vita og skilja hvernig við eigum að beita þessum lögum sem ber að fara eftir í leyfisveitingarferlinu sjálfu, m.a. lög um umhverfismat framkvæmdaáætlana, (Forseti hringir.) kröfur vatnatilskipunarinnar, kröfur sem náttúruverndarlögin gera líka. — Ég held áfram í næstu ræðu.