154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[21:28]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég get alveg verið sammála því sem hv. þingmaður kemur inn á varðandi fyrirhyggjuleysi Íslendinga, enda hef ég oft flutt ræður um ýmis málefni þar sem mér finnst verulega skorta á að við séum að horfa til lengri framtíðar. Það kom fram í ræðu áðan þegar við vorum að ræða raforkuvæðingu samfélagsins. Það er eftir tíu ár, jafnvel skemmri tíma, þá ætlum við okkur að raforkuvæða samfélagið. Það er ekki þannig í dag. Í dag erum við náttúrlega að nýta jarðefnaeldsneyti og annað en við ætlum að fara bara í raforku. Það er stefnan, það er búið að gefa það út. Þá verður þetta kerfi, raforkukerfið, enn þá mikilvægara. Það verður miklu mikilvægara fyrir okkur í heild sinni og þess vegna þurfum við að hafa styrkinn og flutningskerfið og annað til þess að geta mætt því.

Ég hef ekki lesið nákvæmlega — ég hef ekki séð þetta plagg sem ASÍ var að senda rétt áðan. Ég held að það þurfi bara að skoða meira þessar sviðsmyndir sem eru á bak við. En ég held að það verði ekki svo langsótt. Ég talaði áðan um mikilvægi þess að stóriðjan gæti selt aftur rafmagn inn á kerfið, sem er önnur sviðsmynd, ef það eru bilanir eða slæmir markaðir eða eitthvað og það gæti þá komið inn ef það væri þörf á því. En ég held að það þurfi virkilega slæmt ástand skapast ef þetta á virkilega að trekkja upp raforkuverðið í heild sinni í landinu. (Forseti hringir.) En þetta er bara áhugaverðar pælingar sem þarf virkilega að skoða og örugglega (Forseti hringir.) margar sviðsmyndir sem væri hægt að skoða gagnvart nákvæmlega þessum þætti.