154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

úrræði í heilbrigðiskerfinu.

[15:34]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Elínu Írisi Fanndal fyrir fyrirspurnina. Við höfum teiknað inn í okkar heilbrigðiskerfi ferla til að takast á við það sem því miður kemur fyrir, þegar miður fer, þó að í langflestum tilvikum takist okkur vel til og erum með býsna öflugt og gott heilbrigðiskerfi sem stenst allan samanburð. Ég á sömuleiðis erfitt með að leggja mat á einstök tilvik en eins og hv. þingmaður rakti hér þá er líka mjög mikilvægt að við upplifum þá öryggiskennd að það sé á okkur hlustað og við reynum að gera betur þegar hlutir ganga ekki alveg eftir sem ætlað er, oft við flóknar kringumstæður. Við höfum til þess ferli, kvörtunarferli, til að mynda hefur embætti landlæknis eftirlit með gæðum í heilbrigðiskerfinu. Við höfum líka nýverið sett á fót á Landspítalanum nýtt embætti sem er talsmaður sjúklinga. Við höfum samþykkt hér á Alþingi frumvarp sem snýr einmitt að þessu að hluta, þ.e. um hlutlæga refsiábyrgð þar sem við horfum inn í kerfið okkar og allt það flókna samspil verkþátta og aðkomu sérfræðinga í þeim tilvikum þar sem um aðgerðir er að ræða sem geta verið býsna flóknar og bráðar og af öllum toga og kalla á fjölþætta sérfræðiþekkingu, þannig að við horfum inn í það þegar eitthvað fer öðruvísi en ætlað er, af hverju það hefur gerst og getum þá bætt kerfið okkar gagnvart sjúklingum. Það er nú svona það sem ég get farið almennt yfir hér.