154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

sektarfjárhæðir í lagareldi.

[15:39]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Forseti. Píratar eru eini flokkurinn sem stendur í lappirnar þegar kemur að fiskeldi í opnum kvíum vegna þess að umhverfisspjöll og dýraníð er óhjákvæmilegt. Píratar vilja einfaldlega banna þetta vegna þess að sama hvernig við reynum og hversu fín lög við setjum er ekki hægt að tryggja að íslenska laxinum verði ekki útrýmt. Jafnvel færustu, grænustu og viljugustu ríkisstjórnir hafa ekki getað sett lagaramma og eftirlit náttúrunni til verndar. Alltaf er sagan sú sama: dauðir firðir, lús, stórfelld umhverfisspjöll og hömlulaus gróði örfárra einstaklinga á kostnað samfélagsins. Auðvitað þarf enginn að spyrja sig út í getu Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og VG til að koma böndum á þessi mál, flokkar sem satt best að segja gætu ekki komið sér saman um innkaup á kaffistofu, hvað þá að setja flókin lög og reka gott eftirlit með laxeldi. Í dag berast þær fréttir að stærsti hluthafi Arnarlax hafi greitt sér 48 milljarða kr. í arð fyrir árið 2023. Á sama tíma fáum við í atvinnuveganefnd minnisblað um að í ljósi þess að upphafleg drög frumvarpsins gengu út frá þeirri forsendu að leyfi væru ótímabundin gæti það reynst of íþyngjandi með tilliti til stjórnarskrárákvæða um meðalhóf og atvinnuréttindi að hafa sektir eins háar og lagt var upp með í byrjun. Með öðrum orðum, það er óljóst hvort lækka þurfi sektarfjárhæðir þessara arðsömu stórfyrirtækja vegna hroðvirknislegra vinnubragða ráðherra. Núverandi frumvarp segir til um 5 millj. kr. sekt á hvern lax sem veiðist fyrir utan kví. Það hljómar frekar ríflegt en á þessari sekt er magnafsláttur. 150 laxar sleppa og eftir það skiptir engu máli hvort laxarnir verði þúsund í viðbót því sektin getur aldrei orðið hærri en 750 milljónir. (Forseti hringir.) Magnafsláttur á umhverfissóðaskap er skelfileg hugmynd. Heldur hæstv. ráðherra að 750 millj. kr. sekt sem mögulega þarf jafnvel að lækka sé nægilegur hvati fyrir fyrirtæki eins og Arnarlax, sem borgar sér tugi milljarða í arð á ári, til að gulltryggja sínar kvíar með tilheyrandi kostnaði?

(Forseti (BÁ): Forseti minnir á að ræðutími í óundirbúnum fyrirspurnum er takmarkaður við tvær mínútur í fyrri ræðu og eina mínútu í síðari ræðu.)