154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

breytingar á ýmsum lögum vegna eftirlits og leyfisveitinga Orkustofnunar.

898. mál
[16:11]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Ásmundur Friðriksson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan þá styð ég það að gjöld fyrir þjónustu séu greidd. Ég veit ekki alveg hvort við eigum að fara að gera Gæsluna út með það að vera með posa um borð og rukka menn fyrir reddingar út á hafi, ég held að það sé ekki það sem við viljum. En ég minni á varðandi loðnuleit og ýmislegt annað sem snýr að sjávarútvegi að þá hefur útgerðin lagt til skip og tekið þátt í leit að loðnu og hefur gert það a.m.k. tvær síðustu vertíðar og reyndar margoft áður þannig að mér hugnast mjög vel slíkt samstarf. En það er auðvitað metnaður okkar sem þjóðar að gera Hafrannsóknastofnun þannig úr garði gerða að hún geti staðið undir þeim væntingum sem við gerum til hennar. Ég held nefnilega að á endanum muni það skila okkur meiri verðmætum heldur en hingað til.