154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[16:56]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Það er alltaf áhugavert að glíma við mál sem koma svona seint til þingsins. Við þingmenn þurfum að drífa okkur ansi mikið til að fara yfir þetta mál. Ég fæ svona sömu upplifun og úr Covid-fárinu þar sem ýmis frumvörp voru afgreidd hérna á færibandi á örskömmum tíma til þess að bregðast við neyðaraðstæðum. Ég velti fyrir mér hvort það sé eitthvað sem við þurfum að vera að glíma við í þessum aðstæðum. Lög um opinber fjármál eru ansi skýr um það hvernig stjórnvöld þurfa að matreiða mál fyrir þingið. Það á að fylgja úrvinnslunni ákveðin valkostagreiningu og sviðsmyndagreining og ég velti fyrir mér þegar ég horfi á það úrval sem hér er í boði, viðbrögðin við því ástandi sem er í Grindavík, hvort þetta séu bestu lausnirnar, hvort það sé best að gera þetta svona. Mig langar til að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Komu aðrar hugmyndir til tals og greiningar um það hvernig væri hægt að koma til móts við vandann í Grindavík eða eru þetta greiningarnar, hugmyndirnar sem var unnið úr allan tímann? Ef ekki, hvernig fór fyrir hinum hugmyndunum? Hversu mikil vinna fór í það að greina aðra kosti í stöðunni?