154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[16:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekki óskastaða neins, held ég, hvorki ráðherra né þingsins, að þurfa að fá svona mál til umfjöllunar með skömmum fyrirvara. Það getur vel verið að það sé rétt hjá hv. þingmanni að manni verði aðeins hugsað til Covid-tímans. Það er hins vegar nokkuð augljóst að þær náttúruhamfarir sem hafa verið og eru enn í gangi eru nokkuð ófyrirséðar og þó að ég muni aldrei segja að þær séu óhjákvæmilegar því að ég vildi svo gjarnan vera laus við þær, þá er þessi tímafaktor óljós og þar af leiðandi umfang hamfaranna og þar af leiðandi umfang afleiðinganna sem þær hafa og þar af leiðandi líka þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til. Eins og hv. þingmaður veit þá var settur á laggirnar sérstakur hópur sem skoðaði nokkuð nákvæmlega Grindavík og aðstæður þar og hluti af þeim aðgerðum sem við höfum verið að leggja til varðandi stuðning við fyrirtækin byggir á því. Önnur vinna hefur verið unnin fyrr og þá ýmsar leiðir skoðaðar og þessar valdar, þ.e. þessi sérstaki húsnæðisstuðningur og framlenging launastuðnings, rekstrarstuðningur við fyrirtækin. Hér er auðvitað verið að útfæra hluta af því og framlengja vegna þess að tíminn hefur sýnt að það umfang sem við vorum með var ekki nægjanlegt í upphafi.

Ég held að hér sé lagst eins vel yfir hlutina og hægt er. Í upphafi síðustu viku var ég á fundi í norrænu ráðherranefndinni þar sem var gefin út skýrsla, það var sérfræðingur sem kom og var að meta hvað hefði verið gert í Covid-ferlinu. (Forseti hringir.) Það kom í ljós að þær leiðir sem við erum að fara hér voru heldur betri en aðrar leiðir þannig að ég held að það megi segja að (Forseti hringir.) við séum á réttri leið. Eru þetta réttu eða einu leiðirnar? Það þori ég ekki að segja neitt um.