154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[17:02]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Nú veit ég ekki hvort hv. þingmaður var vísvitandi að reyna að snúa út úr orðum mínum eða hvort það sé bara einhver hefðbundinn misskilningur sem hér á sér stað. Ég var að vitna til að í endurmati á Covid-aðgerðum sem menn lögðu af stað í og höfðu auðvitað ekki fulla vissu um nákvæmlega hvað þeir væru að gera og í þeirri skýrslu sem var lögð fyrir norrænu ráðherranefndina og fjármálaráðherra Norðurlanda þá kom fram að þær leiðir sem við erum að velja hér — og þær hafa augljóslega verið taldar þær bestu, það er þess vegna sem þær koma hingað inn og það er verið að framlengja þó nokkrar þeirra af því að það er talið að nákvæmlega þær hjálpi til við það sem við erum að reyna að gera, þ.e. halda utan um fólk og fyrirtæki tímabundið á meðan þessar hræringar ganga yfir. Þetta sé réttari leið heldur en aðrar leiðir sem farnar hafa verið. Það var það sem ég var að segja. En hvort þær séu þær einu og réttustu eftir á að hyggja þegar við lítum til baka eftir tíu ár, það get ég ekki sagt.