154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[17:04]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir hans framsögu. Mér sýnist svona fljótlega af yfirlestri að stærstum hluta af þessum rúmu 6 milljörðum hafi þegar verið ráðstafað í þá varnargarða sem þegar eru komnir þannig að það er verið að tryggja fjármuni til þess að greiða fyrir því.

Það sem vekur athygli mína í þessu er Þórkatla og þá kostnaðurinn eða að það er verið að veita heimildir upp á 37 milljarða til að auka hlutafé ríkisins í Þórkötlu. Í greinargerð er verið að nefna að kostnaðurinn sé kominn í 75 milljarða og þar af kostnaður ríkisins í 51 milljarð. Við vitum að Þórkatla nær ekki utan um allt íbúðarhúsnæði í Grindavík heldur eingöngu íbúðarhúsnæði þar sem eigendur höfðu lögheimilisfesti. Það nær heldur ekki utan um þá sem áttu húsnæði í gegnum aðra kennitölu en sína eigin. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi verið skoðað með einhverjum hætti hver kostnaðurinn gæti verið ef allt íbúðarhúsnæði í Grindavík myndi falla undir uppkaup í gegnum Þórkötlu. Það væri þá horft til þess húsnæðis sem eigendur hafa ekki lögheimili í og síðan húsnæðis sem er í eign lögaðila.