154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[17:08]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hans orð. Ég skil og átta mig á því að kostnaður vegna uppkaupanna hafi aukist og það er m.a. vegna þeirrar leiðar sem farin var. Það að miða við brunabótamat gaf fólki færi á því að láta endurmeta brunabótamat á eignum sínum. Það hefur auðvitað haft í för með sér verulega aukinn kostnað. En einhvern veginn á ég erfitt með að horfa bara á kostnað, þetta er spurning um jafnræði íbúanna þegar kemur að því að bæta þeim þann skaða sem þau hafa orðið fyrir vegna þeirra náttúruhamfara sem áttu sér stað og ekki voru af þeirra völdum. Þannig að maður velti því fyrir sér hvort við séum með þessu að uppfylla skilyrði um jafnræði þegar kemur að því að standa með þessu fólki sem svo sannarlega hefur orðið fyrir skaða í Grindavík.