154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[17:09]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að við hv. þingmaður deilum því sjónarmiði að við vildum gjarnan geta komið til móts við allt og alla en náttúruhamfarir af þessari stærðargráðu gera það að verkum að menn verða annars vegar að horfa til þess fyrirkomulags sem við höfum áður haft á við hamfarir á Íslandi, hverja við höfum sett í forgang, eins og varðandi ofanflóðasjóð þar sem við höfum fyrst og fremst verið að horfa á heimili fólks. Þetta er auðvitað gert í anda þess. Síðan höfum við verið með aðrar stuðningsaðgerðir sem eiga að hjálpa til við að takmarka tjón eða hjálpa fólki og fyrirtækjum í gegnum þennan tíma og það er þess vegna sem við höfum verið að bæta í úrræðin. Eitt af þeim er hér fyrir efnahags- og viðskiptanefnd eða þinginu enn þann dag í dag sem lýtur þá að einhverju leyti að lögaðilum. En svo eins og ég nefndi áðan þá veit ég til þess að menn munu skoða hverja umsókn með opnum hætti til að reyna að leysa vanda sem flestra.