154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[17:10]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir framsöguna. Hér er verið að tala um fjáraukalög þar sem ráðherra er að leita aukinna fjárheimilda og er þetta vegna Grindavíkur og í fimm liðum; það er varnargarðurinn, það eru rekstraraðilar í Grindavík, Afurðasjóðurinn og í fjórða lagi húsnæðisstuðningur og svo í fimmta lagi kostnaður vegna framkvæmdanefndar. Þetta eru í allt tæpir 6,4 milljarðar kr. Í janúar voru lögð fram fyrstu fjáraukalög ársins vegna Grindavíkur. Eins og kemur fram í innganginum í greinargerðinni fól frumvarpið ekki í sér aukningu á fjárheimildum því að almennur varasjóður var lækkaður á móti þeim kostnaði sem aðgerðirnar fólu í sér, sem nam ríflega 8 milljörðum kr. Nú vitum við að það stendur í 26. gr. laga um opinber fjármál að ráðherra geti leitað aukinna fjárheimilda enda sé ekki hægt að bregðast við með öðrum úrræðum. Ég vil taka fram að ég er sammála því að fara þessa fjáraukaleið, að koma með þetta til þingsins til að fá fjárheimildirnar en fara ekki beint í almenna varasjóðinn. En það sem mig langar að spyrja um — og ég veit að það þarf strangt til tekið ekki að standa þar og ég sé það ekki í frumvarpinu eða greinargerðinni — er varðandi fjármögnunina á þessum lið hér. Ef ég skil það rétt er ekki verið að fara í varasjóðinn. Það er gert ráð fyrir meiri peningum í kassann, að heildartekjurnar verði meiri en nemur 11 milljörðum. Mig langar að spyrja: Til að fjármagna Grindavík, erum við að fara í auknar lántökur? Ég held að Þróunarbanki Evrópu hafi komið þar eitthvað við sögu. Við tölum aldrei um skattahækkun til að fjármagna þetta. Er þetta fjármagnað bara með hagvaxtaraukningunni (Forseti hringir.) og auknum lántökum? Það væri líka gott að fá að vita hjá (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra hversu há fjárhæð þetta er, (Forseti hringir.) komi styrkurinn til eða stuðningurinn við Grindvíkinga.