154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[17:19]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum hérna fjórða fjárauka ársins. Við í hv. fjárlaganefnd höfum fengið þó nokkra til okkar. Ég held að við getum öll hér inni og úti í íslensku samfélagi verið sammála um mikilvægi þess að styðja við Grindvíkinga. Mig langar í þessu samhengi að vitna til greinar sem ég ritaði við upphaf þessara hamfara fyrir jól þar sem ég hvatti til þess og við í Samfylkingunni, og allir flokkar í minni hlutanum, tóku undir það, að það myndu vera ákveðin þrjú grundvallaratriði sem ættu að gilda um stuðning við Grindvíkinga eftir þessar náttúruhamfarir sem enn þá standa yfir. Í fyrsta lagi er þar lögð áhersla á að kostnaður falli ekki á Grindvíkinga heldur verði borinn af þjóðinni allri sameiginlega. Í öðru lagi, og það er mjög mikilvægt að halda þessu til haga, að neikvæð þjóðhagsleg áhrif verði lágmörkuð, svo sem áhrif á verðbólgu á húsnæðismarkað. Í þriðja lagi, og þetta tvennt tengist, að reynt verði að ná breiðri sátt um útfærslu aðgerða og fjármögnun þeirra. Það er nefnilega mjög auðvelt að koma hér upp og lýsa stuðningi við aðgerðir í þágu Grindvíkinga en ekki ræða erfiðu hliðina sem snýr að því hvernig þær aðgerðir eru fjármagnaðar. Spurningin er ekki hvort við sem þjóð ráðum við þennan kostnað, t.d. við uppkaup á fasteignum Grindvíkinga sem sannarlega var ráðist í og allir flokkar hér á þingi studdu, heldur hvernig við drögum úr neikvæðum hliðaráhrifum af þessum aðgerðum sem nú þegar hefur verið ráðist í vegna skaða sem nú þegar hefur skeð.

Þetta er mjög mikilvægt að hafa í huga. Þetta er skaði sem er skeður, þetta er ekki ákvörðun um hvort það eigi að gera húsnæði, a.m.k. eins og sakir standa, verðlaust og ígildi þess í rauninni fyrir þetta svæði að lenda í stríði, ef svo má segja, þ.e. fjáreignirnar, eignamyndunin hverfur. Undir svoleiðis kringumstæðum þarf að koma kerfinu aftur af stað og til þess þarf fjármagn.

Ég vek athygli á þessu, frú forseti, vegna þess að hv. fjárlaganefnd er nýbúin að afgreiða fjárauka númer þrjú, sem gengur undir vinnuheitinu kjarasamningsfjárauki, þar sem um 13 milljarða útgjöld er að ræða í tengslum við kjarasamninga og kjarasamningsaðgerðir þar sem, hvað á ég að segja, fyrri ríkisstjórn undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur, þáverandi forsætisráðherra, tilkynnti um aðgerðir sem hvergi var að finna í fjárlögum yfirstandandi árs. Þar eru 13 milljarðar kr. sem eru ófjármagnaðar aðgerðir í raun.

Af hverju er ég að nefna það í þessu samhengi? Jú, vegna þess að það hefur borið á því, forseti, líkt og ég tók eftir hér í umræðunni í andsvörum við hæstv. fjármálaráðherra, að rætt sé um 1, 2, 10, 15, jafnvel 20 milljarða sem upphæðir sem hafi ekki veruleg áhrif á afkomuna, eins og það skipti í raun engu máli að svona háar upphæðir falli til vegna þess í samhengi við heildarútgjöld ríkissjóðs, jafnvel landsframleiðslu, það er mælikvarði sem ég heyrt, þá skipti þetta engu máli. En staðreyndin er sú, frú forseti, að áhrif á verðbólguna og áhrif af umsvifum ríkissjóðs ráðast alltaf á jaðrinum.

Hér inni tökum við erfiðar ákvarðanir á hverjum einasta degi og ríkisstjórnin tekur ákvarðanir reglulega, til að mynda um að leggja niður vaxtabótakerfið sem á að spara 2 milljarða á ári á tímabili fjármálaáætlunar, til þess einmitt að passa upp á verðbólguna. Hér erum við að ræða um beinar greiðslur í þessum fjárauka upp á 6,3 milljarða kr., greiðslur sem ég ætla að leyfa mér að fullyrða að allir hér inni styðji. Hins vegar er engin fjármögnun á bak við þessar aðgerðir. Við bætist viðbótareiginfjárframlag í tengslum við uppkaup á húsnæði sem enn og aftur allir styðja. Hv. þm. Eyjólfur Ármannsson kom líka inn á þennan fjármögnunarhlut hér áðan. Það þýðir að nú er í rauninni búið að veita 75 milljarða kr. með einum eða öðrum hætti, sama hver tók í rauninni þá ákvörðun, hvort það sé Náttúruhamfaratrygging Íslands eða ríkið, þetta sé í formi eiginfjárframlaga eða rekstrarútgjalda. Þessi peningur er nýr peningur í umferð vegna þess að ólíkt því sem hæstv. fjármálaráðherra hélt hér fram áðan þá eru ekki virkar fasteignir þarna á bak við. Þetta kann að verða veðlaust og verðlaust innan skamms. Á meðan það er ekki hægt að treysta á þær eignir þá er þetta í rauninni ígildi peningaprentunar.

Ástæðan fyrir að ég nefni þetta er vegna þess að það skiptir rosalega miklu máli að við treystum okkur til að ræða um fjármögnun þessara aðgerða sem leið líka til að styðja við Grindvíkinga. Ef þessar aðgerðir til stuðnings Grindvíkingum, alveg eins og ég nefndi hér í upphafi ræðu minnar, verða til þess að það verða neikvæð þjóðhagsleg áhrif á hagkerfið, hvort sem er á verðbólgu eða vexti eða húsnæðismarkað eða annað, þá er þetta sami hópurinn líka og verður fyrir þeim neikvæðu afleiðingum. Grindvíkingar eru ekki í sér hagkerfi að því leytinu til. Það er nú þannig með erfiðar ákvarðanir, þegar fólk kemur hingað upp í pontu og talar um að standa saman, að við sem þjóð stöndum við bakið á Grindvíkingum, þá þurfum við líka að treysta okkur til að eiga það samtal um hvað það raunverulega þýðir að standa við bakið á Grindvíkingum. Það þýðir ekki bara að við segjum: Við borgum allt, heldur að við ákveðum hvernig við borgum fyrir það og við tökum það á okkur, við hin sem erum ekki að lenda í þessu áfalli. En ef það er ekki tekin skipulögð ákvörðun um að fjármagna þetta, ef það er ekki tekin pólitísk ákvörðun um mögulega að hækka gjöld, breyta skattlagningu, sérstaklega á þá sem hafa svigrúm í íslensku samfélagi, til þess að standa undir þessum kostnaði, hvað gerist þá, hæstv. forseti? Þessi kostnaður hverfur ekki. Hann fellur þá með jöfnum hætti á fólkið í landinu í formi verðbólgu og hárra vaxta og þessi kostnaður verður í raun hlutfallslega þyngra á þá sem hafa minnst svigrúm, þá sem eru með háar skuldir, ungt fólk, og í einhverjum tilvikum mun líka falla þyngra á Grindvíkinga vegna þess að sumt af þessu fólki vitum við vel að fékk ekki greiddar út nægjanlega háar upphæðir til að standa undir fasteignakostnaði síðar meir. Það er búið að bæta við skuldsetningu vegna þessa. Það er ekkert sem kallast frír hádegisverður í þessu boði. Ef fjármögnun er ekki til staðar þá fellur hún til. Þetta verður að ræða í þessu samhengi þó að það sé óþægilegt.

Það sem er líka áhugavert., forseti, eins og hv. þm. Eyjólfur Ármannsson kom inn á hér áðan, er að fyrir jól var tekin sú ákvörðun með miklu hraði og því máli komið í gegnum þingið að fjármagna ákveðnar aðgerðir, uppbyggingu varnargarða. Stærsta ástæðan fyrir því sem fyrrverandi forsætisráðherra nefndi í því samhengi var einmitt áhrifin á efnahagslegt umhverfi. Það voru nokkrir milljarðar, 2,5 minnir mig, ég er ekki alveg viss, forseti. En af hverju hurfu þau rök allt í einu núna? Allt í einu virðast þau rök ekki eiga við í þessari umræðu. Kannski er það vegna þess að nú er orðið erfiðara að taka ákvarðanir, stórpólitískar ákvarðanir. Kannski er það vegna þess að það er ósætti innan ríkisstjórnarinnar um hvernig eigi að fjármagna slíkt. En ég legg áherslu á að þessi vandi og neikvæðu áhrifin hverfa ekki þó að ekki sé vilji til ákvarðanatöku hér inni.

Mig langar í seinni hlutanum, hæstv. forseti, að koma aðeins inn á aðgerðirnar sem slíkar. Ýmislegt gott hefur verið gert sem hefur hlotið þverpólitískan stuðning hér inni. Það hefur verið ráðist í uppkaup á húsnæði, það hefur verið ráðist í tekjuaðgerðir fyrir fólk sem hefur misst afkomu sína og núna er verið að ráðast í stuðningsaðgerðir fyrir fyrirtæki. En allar aðgerðirnar sem hér um ræðir hafa fallið til á eftirspurnarhlið hagkerfisins. Þegar það kom í ljós að Grindavíkurbær væri svo til óíbúðarhæfur var ljóst, eins og hæstv. fjármálaráðherra kom inn á, að um 1% þjóðarinnar myndi koma inn á húsnæðismarkað, leita sér að húsnæði, um 4.000 manns. Ég man mjög vel eftir því þegar þessi umræða kom fyrst hér inn í þingið og líka bara í fjölmiðlum vegna þess að það voru margir sem höfðu áhyggjur af áhrifum þessa á húsnæðismarkaði hér á landi. Þá var sérstaklega talað um mikilvægi framboðsaðgerða, það væri farið í uppbyggingu á húsnæði en margir voru meðvitaðir um að mögulega þyrftum við að fara svipaða leið og var farin eftir Heimaeyjagosið, fara í innflutning á tilbúnum húsnæðiseiningum vegna þess að það þyrfti að koma fólki í skjól sem fyrst. Ekkert hefur orðið úr þessu. Það kann að hafa farið fram hjá mér ef slík hverfi hafa risið.

Það hefur verið farin sú leið að ríkið hefur með beinum hætti farið inn á íbúðamarkað og keypt upp íbúðir. Það er gott svo langt sem það nær. En það hefur samt þýtt að eftirspurn hefur aukist talsvert á húsnæðismarkaðnum. Eins og ég sagði áðan, ég man svo vel eftir þessari umræðu vegna þess að einhvers staðar las ég að ekkert væri í rauninni að óttast, þetta væru bara 4.000 manns. Það væri ígildi þeirra aðila sem væru að koma nýir inn í hagkerfi með reglulegu millibili vegna þess að það hefði verið svo mikil fólksfjölgun á Íslandi. Þetta situr svolítið í mér, þessi umræða, vegna þess að eftir á að hyggja er þetta til marks um í rauninni skort á skilningi á samhengi hlutanna hjá ríkisstjórninni, að segja að þetta verði ekkert vandamál fyrir húsnæðismarkaðurinn vegna þess að við höfum séð þessa miklu fólksfjölgun hingað til hvort sem er, eins og hún hafi engu máli skipt En staðreynd málsins er núna sú og við erum farin að vita svo vel að einmitt sú atvinnustefna sem hefur verið keyrð hér áfram á undanförnum árum og sérstaklega í tíð þessarar ríkisstjórnar og hefur ýtt undir vinnuaflsfrekar atvinnugreinar, útflutningsgreinar sem krefjast mikils vinnuafls, aðflutts vinnuafls, hefur sett gríðarlegan þrýsting á húsnæðismarkaðinn. Lærdómurinn hefði einmitt átt að vera sá að við vitum að 4.000 manns inn á húsnæðismarkaðinn, það hreyfir nálina og hefur áhrif. Það skiptir ekki máli þó að sveitarfélög eins og Reykjavíkurborg sé í uppbyggingarham. Það er aldrei nóg ef það koma alltaf fleiri og fleiri inn í kerfið með litlum aðdraganda.

Nú liggur alveg fyrir og við höfum bara tölfræði sem sýnir það að þessi staða hefur haft áhrif á húsnæðismarkaðinn. Þessi staða er að þrýsta upp húsnæðisverði. Grindvíkingar hafa verið í sumum tilvikum að berjast um íbúðir og þetta hefur gert það að verkum að þeir hafa þurft að auka skuldsetningu sína, taka hávaxtalán, eru orðnir viðkvæmir fyrir skorti á mótvægisaðgerðum, bæði á framboðshliðinni og á fjármögnunarhliðinni, af hálfu stjórnvalda vegna þess að það er ekki vilji til að taka þá umræðu hér inni.

Rétt í lokin, forseti, langar mig til að nefna að þetta á auðvitað ekki bara við þessi þensluáhrif. Þó að þau komi vegna mikilvægra aðgerða þá vitum við að það er fullt af aðgerðum sem við ræðum hérna í sal sem eru mikilvægar en við reynum þó að fjármagna þær eða það er vilji til að fjármagna þær til að koma í veg fyrir þenslu. En það er ekki bara það sem er að birtast okkur t.d. í þessum fjárauka, 6,3 milljarðar kr., sem er að birtast okkur á útgjaldahlið ríkissjóðs, vegna þess að fjármálaráð kemur sérstaklega inn á það í umsögn sinni um fjármálaáætlun að það sé verið að gera athugasemd við útgjöld ríkissjóðs sem fara ekki í gegnum útgjaldahliðina beint heldur í gegnum sjóðstreymið. Þá er ég að tala um hluti eins og viðbótarlánveitingar til Bríetar, í þessu tilviki eiginfjárframlög til Þórkötlu; þættir sem auka í rauninni umsvif ríkisins í hagkerfinu en mælast ekki í afkomunni. Það er einmitt afkoman og áhrif hennar og hliðaráhrif sem skipta svo miklu máli í efnahagslegu tilliti.

Þess vegna er þetta vinkill sem ég vildi koma með inn í þessa umræðu og við megum ekki líta fram hjá því þó að við séum öll hér af vilja gerð þegar kemur að samstöðu með Grindvíkingum.