154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[17:37]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Stórt er spurt. Hvað veldur? Það er náttúrlega mikil hræðsla við það hjá sitjandi ríkisstjórn að tala almennt um fjármögnun. Þetta birtist okkur mjög skýrt, til að mynda við umræðu um fjármálaáætlun þar sem er verið að finna til alls konar aukaatriði til að fjármagna stórpólitískar ákvarðanir. Ég vil ekki fullyrða hér að það sé skilningsleysi á efnahagslegum áhrifum þessara aðgerða vegna þess að ég trúi því einfaldlega ekki, forseti. Ég trúi því ekki að fólk átti sig ekki á því að 100 milljarða viðbót inn í íslenskt hagkerfi vegna þess að heilt bæjarfélag varð, a.m.k. eins og sakir standa, verðlaust — vonandi fær það aftur verð, þ.e. fasteignirnar í bænum — hafi ekki áhrif á umsvif. Það er mjög þekkt í hagkerfum sögunnar, til að mynda eftir stríð og þess háttar þegar þarf að ráðast í mikla uppbyggingu og fjármunir og eignir hverfa. Ég get ekki ímyndað annað en að það sé ekki pólitísk eining um hvernig eigi að fjármagna þessar aðgerðir. En ég vara mjög við því að hlaupast undan ábyrgð í þessu máli vegna þess, eins og ég fór yfir hér áðan, að ef þetta er ekki fjármagnað með beinum hætti þá mun þetta og er í rauninni þessa dagana líklega að birtast okkur í verðbólgu. Við viljum ekki að umræðan fara að snúast með neikvæðum hætti um inngrip ríkissjóðs í þessar hamfarir heldur að fólk geti stolt sagt frá því að það raunverulega hafi staðið með Grindvíkingum.