154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[17:39]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég held að það sé einmitt kjarnapunkturinn. Auðvitað getur það gerst og er, eins og hv. þingmaður nefnir, sennilega að gerast, að við sjáum áhrifin birtast með þeim hætti að þau eru til staðar hvað verðbólguna varðar. Það er hættulegt inn í pólitísku umræðuna þegar heildarsamhengi hlutanna hefur ekki verið rætt vegna þess á lokametrum ríkisstjórnarsamstarfsins er orðin feimni við það að taka erfiðar ákvarðanir. Ég ætla reyndar ganga lengra og segja að mér hefur fundist það vera ákveðið leiðarstef hjá ríkisstjórninni töluvert lengur en það. En mér finnst líka mega nefna í öðru samhengi þegar nefndin er að fjalla um t.d. fjármálaáætlun, ákveðið virðingarleysi líka í því fólgið, eins og við sjáum birtast með kjarasamningana, þegar við höfum álit fjármálaráðs um það að framkvæmd kjarasamninga (Forseti hringir.) af hálfu ríkisstjórnar Íslands fari í bága við lög um meðferð opinberra fjármála. Það eru ekki léttvæg orð. (Forseti hringir.) Mér finnst mjög sérstakt að þau orð hafi, að manni virðist, ekki teljandi áhrif á ráðherra ríkisstjórnarinnar.

(Forseti (ÁsF): Forseti minnir ræðumann á að ræðutíminn er ein mínúta í síðari umferð.)