154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[17:49]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Kristrúnu. Frostadóttur fyrir fína ræðu um þetta mál og umræðuna í andsvörum sem mér finnst lúta að kjarna málsins. Ég er á nokkuð svipuðu róli og þingmenn sem hafa komið upp í andsvör, það er þetta ógagnsæi í fjármögnuninni. Það kom frumvarp hérna sem var keyrt í gegnum þingið á einum degi fyrir jól. Þá var settur skattur upp á 2,5 milljarða á fasteignaeigendur. Það var kostnaðurinn við varnargarðinn. Þá voru í almenna varasjóðnum 3,8 milljarðar, það hefði mátt hoppa í hann og taka þar út en það var ákveðið að skattleggja. En við vissum hver væri að borga fyrir þetta, þetta fór alla vega í ríkissjóð, skatturinn frá áramótum. Ég get hins vegar ekki séð hvernig þetta er nákvæmlega fjármagnað þó svo að ég hafi spurt ráðherrann að því. Ég tek undir það að þetta hefur áhrif til hærri verðbólgu og hærri stýrivaxta og við erum alltaf á jaðrinum. Það eru útgjöld ríkissjóðs fyrir 1.500 milljarða og Hagstofan gerði ráð fyrir því að verðbólga í ár yrði 5,6% og þá var litið til þess að stýrivextir myndu fara að lækka. Þegar við erum á jaðrinum og erum að tala um 7,4 milljarða inn í hagkerfið til að styðja við Grindavík þá er væntanlega hægt að meta hversu mikil áhrif þetta hefur á vaxtastigið. Seðlabankinn er búinn að líta til Grindavíkur og segja að hann ætli ekki að lækka stýrivexti. Líka verðbólguna, það er húsnæðisliðurinn, 4.000 manna sveitarfélag er farið, íbúar búnir að missa húsnæði sitt og sveitarfélagið þarf að leita að húsnæði annars staðar sem eykur eftirspurn eftir húsnæði sem hækkar húsnæðisverð. Er þetta ógagnsæi ekki óásættanlegt? Eigum við ekki að krefja ríkisstjórnina um skýrari svör um hvernig þetta er fjármagnað? Hærri verðbólga og hærri stýrivextir eru eins konar skattur. Það þarf að borga þetta með einhverjum hætti. Mín persónulega skoðun (Forseti hringir.) er sú að það hefði jafnvel þurft að setja bara skatt eins og í byrjun. Þetta kostar. (Forseti hringir.) Getur hv. þingmaður kannski upplýst okkur um hvernig hún telji að þetta verði borgað? (Forseti hringir.) Er það bara svigrúmið innan fjárlaganna sem á að greiða þetta?

(Forseti (ÁsF): Ég minni þingmanninn á að hann hefur sama ræðutíma og aðrir þingmenn, tvær mínútur í fyrri umferð.)