154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[17:52]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni fyrir andsvarið. Það liggur alveg fyrir að þegar við fórum inn í áramót með samþykkt fjárlög þá var svigrúm í varasjóði en það var ekki gert ráð fyrir kjarasamningsaðgerðum og það var ekki gert ráð fyrir þessari upphæð sem hér um ræðir í umræddum fjárauka. Það var vissulega gengið á varasjóðinn, þ.e. fyrstu tvo fjáraukarnir sem sneru að Grindavík fóru inn á varasjóðinn þótt hluti hafi einmitt verið fjármagnaður með skatti eins og hv. þingmaður bendir á. Það er í sjálfu sér bara mjög eðlilegt, eins og ég minntist á hér fyrr í andsvari, að beita sér fyrir fjármögnun þessara aðgerða og sækja fjárheimild í fjárauka, en það blasir við að fjármögnunin mun bara fela í sér að afkoma ríkissjóðs versnar. Hér er oft talað um að þetta hafi takmörkuð áhrif á afkomu og þess háttar. Þessu svipar svolítið til umræðunnar um fjárauka þrjú, kjarasamningsfjáraukann, þar sem er kannski búið að endurmeta tekjur út af verðbólgu eða það er búið að breyta aðferðafræði við mat á skattkröfum eða sækja arðgreiðslur í ríkisfyrirtæki. En það breytir því ekki að virk ákvörðun um tekjuauka hefur ekki verið tekin og þess vegna hefur þetta verðbólguáhrif. Það sem er auðvitað enn þá meira áhyggjuefni er að því lengur sem þessar aðgerðir vara, sem við styðjum öll, því meiri hætta er á að þetta ýti enn frekar undir verðbólgu og þá verður ríkið að fara að grípa til einhvers konar fjármögnunaraðgerða.