154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[17:55]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég hafði reyndar ekki rekið augun í þennan kafla í fjárauka fjögur. Ef rétt reynist að það sé sama málsgrein um viðbótartekjur hjá ríkissjóði þá er það auðvitað ótrúlegt vegna þess að fjárauki þrjú gekk einmitt út á það að svigrúm væri fyrir 13 milljarða kjarasamningskostnaði vegna þess að það var búið að finna til fjármagn í auknum tekjum og þar með aukinni afkomu ríkissjóðs. Það er augljóst, eins og hv. þingmaður segir hér, að þessum peningum verður ekki eytt oftar en einu sinni. Í tengslum við Heimaeyjargosið á sínum tíma var til að mynda ráðist í hækkun á virðisaukaskatti. Ég ætla ekki að segja að það hafi verið skynsamleg ákvörðun á þeim tíma vegna þess að sá skattur veltur strax út í verðlagið en ég nefni þetta bara sem ákvörðun sem var strax tekin af stjórnvöldum til að sýna mikilvægi þess að fjármagna ákveðnar aðgerðir. Hér hefur hins vegar engin slík ákvörðun verið tekin að undanskildum þessum 2,5 milljörðum fyrir jól.