154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[18:23]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Já, einstaklega góðar spurningar. Takk fyrir. Orsakir hallans eru svo sem margþættar. Jú, jú, vissulega eru það að hluta til allar þær aukafjárheimildir sem hefur þurft að fara út í vegna Covid og vegna náttúruhamfaranna, það er ekkert hægt að hunsa það, og jafnvel líka vegna ytri áhrifa út af stríðsrekstri og áhrifa hans á hagkerfið þegar svo ber undir. En það er ákvörðun um hvernig á að koma til móts við hallann óháð því hverjar orsakir hans eru sem er þegar allt kemur til alls orsök hallans. Það hafa komið upp tilfelli þar sem grípa þarf til aukinna fjárheimilda, fjárauka o.s.frv., en þá þarf líka að taka ákvörðun um hvernig á að koma til móts við það. Það hefur ekki verið tekin nein svoleiðis ákvörðun nema í einhverri míkrómynd.

Brýn verkefni sem sitja á hakanum? Þetta er næsti hluti og ef farið væri út í þau verkefni þyrfti enn þá fleiri fjárheimildir sem þyrfti þá að fjármagna einhvern veginn líka. En við höfum fengið yfirlit í fjárlaganefnd á nokkrum málefnasviðum, m.a. í umhverfis-, orku- og loftslagsmálum þar sem fram kom í kynningu ráðherra að þar vantaði 25 milljarða til þess að koma til móts við t.d. vandann í fráveitumálum í sveitarfélögum. Innan háskólanna t.d. erum við líka langt undir viðmiðunum okkar við Norðurlöndin. Þar munar næstum því 20%. Landspítalinn kynnti fyrir okkur að það er ekki bara rekstrarvandi og vandi varðandi fjármögnun á þjónustunni heldur er líka fasteignavandi þrátt fyrir byggingu á nýjum Landspítala af því að það er verið að reka fullt af öðrum (Forseti hringir.) byggingum líka og þess háttar. Það eru þó nokkuð margir milljarðar þarna á bak við, það voru t.d. 3 milljarðar hjá Landspítalanum.