154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[18:45]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður talaði um að við værum núna fimm sinnum ríkari en þegar Eyjagosið varð. Hagkerfislega séð er það mjög áhugavert. Tökum sem dæmi að það var algengt að það væri bara ein fyrirvinna á heimilum og fólk hafði ofan í sig og á með einni fyrirvinnu. Í dag eru almennt tvær fyrirvinnur og fólk hefur ofan í sig og á miðað við aðstæður. Við lítum oft á það eins og við ættum að vera helmingi ríkari með tilliti til þess hvernig við höfum það svona á milli mánaða. En einhverra hluta vegna eru mánaðarlegu afborganirnar enn þá að skila jafn mörgum fjölskyldum jafn miklum erfiðleikum. Það er jafn stórt hlutfall fjölskyldna þegar það var ein fyrirvinna sem átti erfitt með að greiða afborganir milli mánaða og núna þegar það eru tvær fyrirvinnur. Þetta eru þessi jöfnunaráhrif hagkerfisins þegar allt kemur til alls. Þannig að þó að við séum fimm sinnum ríkari þá eru líka allar aðgerðir sem við þurfum að fara út í líka slatta dýrari, kannski ekki fimm sinnum dýrari. En áhrifin af þessum aðgerðum sem þarf að fara út í, kostnaðurinn vegna þeirra, innspýtingin í hagkerfið, lendir í rauninni nákvæmlega eins á fjölskyldum sem eiga erfitt með mánaðarlegar afborganir og þær gerðu þegar Vestmannaeyjagosið varð. Þannig hlýtur spurningin okkar alltaf að vera: Hvernig getum við lágmarkað þau áhrif á þann hóp sem kemur til með vissulega að borga fyrir þetta á ákveðinn hátt þegar við deilum öll kostnaðinum af þessum mótvægisaðgerðum?