154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[18:49]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Já, það er nefnilega spurning sem þarf að svara: Hvernig á að borga fyrir þetta? Grunnsviðsmyndin er sú að það er bara bætt við fullt af peningum í hagkerfið með tilheyrandi verðbólguáhrifum sem hafa tilheyrandi afleiðingar á stýrivaxtaákvarðanir, vaxtaákvarðanir banka og ýmislegt svoleiðis, á þjónustugjöld. Það veltur út í allt í rauninni þannig að jöfnunin í hagkerfinu er eitthvað sem við öll borgum fyrir á einhvern hátt, sum meira en önnur, einfaldlega miðað við þær aðstæður sem fólk er í, hvort það er með há lán eða lægri lán, verðtryggð lán eða óverðtryggð lán og þar fram eftir götunum. Það er grunnsviðsmyndin. Þá þurfum að spyrja okkur: Er það réttlát skipting á því hvernig við greiðum fyrir þessar aðgerðir eða eru aðrir valmöguleikar í boði? Svar stjórnvalda, svar ríkisstjórnarinnar er ekki að leggja þessa valmöguleika á borðið fyrir okkur heldur bjóða þau bara upp á sömu súpu og venjulega.