154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[18:53]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir hans ræðu hér. Mig langaði aðeins að velta vöngum yfir varasjóði sem hv. þingmaður veltir fyrir sér, hvort það hefði ekki átt að fara í þessar aðgerðir. Hann benti m.a. á það að í fyrstu atrennu hefðum við fjármagnað varnargarðana í kringum orkuverið og Bláa lónið með skattlagningu en í framhaldinu hafi verið óljóst með hvaða hætti ætti að fjármagna og þingmaðurinn bendir á varasjóðinn. En varasjóður er ekki ótakmarkaður. Við erum við ákveðnar aðstæður að nýta varasjóð vegna launabreytinga sem eiga sér stað á því ári sem til fellur og við erum núna í þeirri stöðu að vera búin að leggja til ansi marga milljarða inn í tilfærslukerfin og ætlum að leggja einhverja 20 milljarðar á ári, eða 15 milljarða er verið að segja að þurfi að leggja til inn í tilfærslukerfin til að borga fyrir þá kjarasamninga sem búið er að gera. Síðan á ríkið eftir að gera sína kjarasamninga. Opinberir starfsmenn eru enn þá með lausa samninga, bæði starfsmenn sveitarfélaganna og starfsmenn ríkisins. Ef mér skjátlast ekki er ríkið stærsti launagreiðandi landsins og ef við förum að reikna einhverjar launahækkanir inn til handa starfsmönnum ríkisins þá held ég að við förum að telja það í milljörðum á ári. Ég spyr þá hv. þingmann að því: Ef við ætlum ekki að nota varasjóð til að fjármagna launabreytingar, hvernig ætlum við þá að fjármagna launabreytingar? Ég held að ég hafi talað alveg skýrt: Ég er ekki viss um að í varasjóðnum finnist þeir fjármunir sem geta fjármagnað allar þessar aðgerðir; stuðning til handa Grindvíkingum, stuðning inn í tilfærslukerfin til þess að láta kjarasamninga sem búið er að gera halda gildi sínu og síðan launabreytingar opinberra starfsmanna sem ekki eru komnar til kastanna.