154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[19:30]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það sem ég er að velta upp er eiginlega ásýndin, ekki það að við höfum ekki þörf á þessum fjármunum því að svo sannarlega þurfum við á þessu fjármagni að halda miðað við það krísuástand sem við erum að glíma við. Ég er ekki að meina það heldur er ég bara að tala um ásýndina, hvernig ásýndin er þegar búið er að samþykkja lán og annað slíkt og verið að gera ráð fyrir því hér en samt sem áður ekki talað um það við okkur og það kemur hvergi fram í greinargerðinni með þessu fjáraukalagafrumvarpi. Þetta er mjög athyglisvert þegar maður er hreinlega að tala um verklag og gagnsæi og í raun bara lágmarkskurteisi, myndi ég segja, að gera ráð fyrir því alla leið.

Mig langar líka að nefna aðeins í þessu síðara andsvari það sem hv. þingmaður kemur inn á, náttúruhamfaratryggingarsjóðinn. Það stendur til að auka þátttöku hans í fjármögnun Þórkötlu en honum er ekki ætlað að standa í slíkri starfsemi og endurtryggingarsamningar sjóðsins gera ekki ráð fyrir verkefnum sem þessum. Þrátt fyrir það — er þetta ekki varhugaverð leið t.d. til að fjármagna Þórkötlu? Hefði ekki farið betur á því að ríkið hefði fjármagnað þessa auknu kostnaðarþátttöku svo sem með útgáfu sérstakra skuldabréfa eða einhverjum öðrum aðferðum? Við virðumst alltaf vera að grípa til einhverra skyndilausna sem stangast á við regluverkið sem við erum í raun búin að búa til um okkur sjálf. Það virðast vera innbyrðis árekstrar hér og hvar og það virðist einhvern veginn allt saman vera látið danka. Það er ekki að þörfin sé ekki til staðar heldur hvernig aðferðafræði er beitt.