154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[20:17]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir síðara andsvar. Þrátt fyrir að ég sé ekki sú sjónsterkasta er alveg víst að ég hefði tekið eftir því ef ég hefði keyrt í gegnum nýtt hverfi. En ég get svo sannarlega tekið undir með hv. þingmanni, það bólar ekkert á því. Ég hef gjarnan verið að furða mig á því að stjórnvöld skyldu ekki taka sig strax saman í andlitinu og vera löngu farin að byggja á Keldnalandinu þar sem ég vildi vera farin að sjá rísa risabyggð í takti við Grafarholt, Grafarvog og Breiðholt. Þetta hefði verið hægt. Þetta hefur ekki verið neitt vandamál nema núna hjá þessari ríkisstjórn, hjá þessum stjórnvöldum. Ég veit ekki hvað þetta er. Ég veit ekki hvort það er út af því að það vantar eitthvað upp á heilasellurnar eða hvort þetta er einhver verkkvíði eða bara verkvitleysa. En einhvern veginn er það þannig að það bólar ekkert á þessum 30–35.000 íbúðum, þó að við sjáum rísa hér hálfgerð gettó, finnst mér á köflum, þar sem menn virðast vera að reyna að troða eins mörgum íbúðum á eins pínulítið frímerki og hægt er, af verktökum sem nú þegar eru farnir að láta deigan síga og treysta sér ekki einu sinni til að halda áfram að byggja út af þeim okurvöxtum sem þeir eru að glíma við.