154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[20:33]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Það hefur verið forvitnilegt að fylgjast með umræðum um þetta mál hér í dag í þessum þingsal og sömuleiðis þeim umræðum sem hafa verið um önnur mál sem snúa að málefnum Grindavíkur. Hérna erum við að ræða um frumvarp til fjáraukalaga, eitt af nokkrum. Þar er verið að leggja til auknar fjárheimildir til viðeigandi málefnasviða og málaflokka vegna fimm tilefna, eins og segir í þingskjalinu sjálfu. Þetta eru samtals um 6,3 milljarðar kr. Þarna erum við að tala um 4,5 milljarða fjárheimild vegna framkvæmda við varnargarða til að vernda byggð og mannvirki fyrir hraunflæði og svo er það stuðningur í formi beinna styrkja til rekstraraðila í Grindavíkurbær til áramóta. Þar er um tæpan milljarð króna að ræða. Síðan er þarna kostnaður vegna Afurðasjóðs Grindavíkur. Þetta er mál sem við ræddum hér á dögunum í síðustu viku, nýtt stuðningsúrræði fyrir rekstraraðila vegna þeirrar hættu sem fylgir því að viðhalda starfsemi í Grindavíkurbæ. Svo er verið að tala um auknar fjárheimildir vegna framlengingar sérstaks húsnæðisstuðnings til Grindvíkinga sem þurfa að leigja húsnæði til íbúðar utan Grindavíkurbæjar og síðan er um að ræða 150 millj. kr. fjárheimild til að greiða kostnað vegna framkvæmdanefndar um málefni Grindavíkurbæjar og svo er fleira í þessu, heimildir fyrir ráðherra að auka við þá fjármuni sem eiga að renna í Þórkötlu. Auðvitað hafa ráðstafanir þar verið umfangsmeiri en gert var ráð fyrir í upphafi.

Mig langar að segja hérna fyrst, sem ég nefndi í andsvari áðan, að auðvitað þurfum við öll að vera svolítið sanngjörn í því að það er ekki einfalt mál að bregðast við þegar svona hamfarir dynja yfir, engan veginn. Þetta er eitthvað sem við Íslendingar höfum sem betur fer ekki oft þurft að reyna, heilt byggðarlag í raun og veru óíbúðarhæft, getum við sagt. Það þarf að flytja fólk. Þarna eru miklar takmarkanir á búsetu, mjög miklar takmarkanir á því hvernig atvinnustarfsemin megi vera fyrir nú utan það að þarna er bara mjög ótryggt ástand, sprungur um bæinn allan eins og við þekkjum. Yfir öllu vofir enn þá eldgosahætta, gos í gangi núna, landris hafið aftur og við vitum ekkert nákvæmlega hvernig hlutirnir munu þróast. Ég ætla að slá þann varnagla að ríkisstjórnin er ekki öfundsverð af því að þurfa að bregðast við og það er ekki hægt að klæðskerasauma einhverjar aðgerðir í tveimur, þremur liðum og þá séum við búin að taka utan um alla hópa. Það er misjöfn staða sem menn eru í varðandi íbúðarhúsnæði sitt, mjög misjöfn staða varðandi atvinnureksturinn og þar fram eftir götunum. Það er auðvitað ólíkur atvinnurekstur sem um er að ræða. Sumir eru einyrkjar í leiguhúsnæði, aðrir eru að reka risastór fyrirtæki í eigin húsnæði, starfsemin sömuleiðis mjög misjöfn, þannig að þetta er ekki einfalt mál. Og þetta er dýrt. En við höfum hins vegar sagt það öll hér í þessum sal að við viljum taka mjög vel utan um Grindvíkinga og það ástand sem þarna er að skapast og ég er reyndar þeirrar skoðunar að þegar svona lagað gerist þá reyni svolítið á samhjálparkenndina í okkur öllum. Við erum nefnilega svolítið þannig í þessum sal að við erum oft að takast á um það hvar ríkið eigi að vera sterkt og hvar það eigi kannski að sleppa því að vera með starfsemi eða umsýslu. Öll viljum við að alls konar velferðarmál fái mikla athygli hjá okkur. Núna brestur þetta á og það koma upp náttúruhamfarir og yfirvöld þurfa að segja við íbúa: Þið getið ekki verið í húsunum ykkar, þau eru mögulega mörg hver ónýt, við vitum ekki hvenær þið getið hafið fasta búsetu þar aftur. Við vitum ekki hvenær þið getið opnað atvinnustarfsemi ykkar aftur, við vitum einfaldlega ekki hvernig framtíðin verður til lengri tíma. Þegar svona brestur á þá er það bara þannig út frá öllum sanngirnismælikvörðum, algerlega óháð því, finnst mér, hvort við erum til hægri eða vinstri í stjórnmálum, að samhjálpin og samkenndin og það að vera með samtryggingu í gegnum ríkissjóð hlýtur að koma mjög sterklega inn. Það finnst mér alveg hafið yfir allan vafa.

Við þurfum líka að viðurkenna það fyrir okkur að allt saman verður þetta kostnaðarsamt, meira að segja mjög kostnaðarsamt og við vitum ekki hversu dýrt þetta verður þegar allt hefur verið talið. Þess vegna skiptir mjög miklu máli að útfæra þetta með þeim hætti að áhrifin á ríkissjóð og áhrifin á efnahagslífið í víðu samhengi verði sem minnst. Við erum í þeirri stöðu að Seðlabankinn er að reyna að kæla hagkerfið. Það er verið að reyna að fækka þeim krónum sem í umferð eru, minnka umsvifin og veltuna í samfélaginu. En það leiðir alveg af þessum atburðum að sumt af því sem hér er verið að gera og fjármagna af hálfu ríkisins getur virkað í þveröfuga átt og þess vegna finnst manni skipta mjög miklu máli hvernig þetta er hugsað til lengri tíma, þ.e. fjármögnun þessara aðgerða, óháð því hver upphæðin verður endanlega. Hvernig ætlum við að gera þetta? Verður þetta samspil lána, skattahækkana, niðurskurðar eða hver er langtímasýnin í því? Mér hefur fundist aðeins skorta á það hjá ríkisstjórninni að það sé sýnt með nægjanlega skýrum hætti á þau spil. Þetta er eitthvað sem skiptir okkur í þjóðhagslega samhenginu mjög miklu máli.

Það hefur líka verið rætt aðeins um það hér að hversu miklu leyti hefði verið hægt að sjá þetta fyrir núna. Nú er Reykjanesskaginn að fara af stað og við vitum það frá jarðfræðingunum okkar að þetta eru tímabil í jarðsögunni sem geta staðið yfir í 200–300 ár. Það er mikil óvissa í þessu. Þetta fer af stað í einu af fimm kerfum á Reykjanesskaganum, í Fagradalsfjalli. Þar var kannski ekki hættan mikil gagnvart miklum innviðum. Það var jú kannski einhver hætta á að hraun myndi fara yfir Suðurstrandarveginn á einhverjum tímapunkti en þau gos sköpuðu ekki mikla hættu. Síðan vissum við ekkert hvar náttúran myndi næst láta til sín taka og það endaði með því að þetta fór af stað fyrir ofan Grindavík. Við höfum vitað það lengi að það gæti gosið innan bæjarmarka Grindavíkur rétt eins og það getur gosið innan bæjarmarka í Vestmannaeyjum. Mér skilst að þetta séu einu tvö sveitarfélögin á landinu þar sem er raunveruleg hætta á því. Síðan fer þetta allt af stað og við förum sem samfélagið að reisa varnargarða. Og mig langar mig að nefna það í þessu samhengi, sem er bara partur af þessu máli hér, að það hefur verið alveg frábært að sjá hvað varnargarðarnir hafa gert mikið gagn. Við höfum verið að reyna að verja byggðina eins og kostur er með þeim og við sjáum það á loftmyndum að hraunið rennur meðfram görðunum og þeir hafa verið að hlífa byggðinni gríðarlega mikið, gott ef það var ekki sagt þegar mest lætin voru í gosinu sem nú er og hraunrennslið sem stríðast að stór hluti af byggðinni í Grindavík hefði sjálfsagt farið undir hraun ef þessir garðar hefðu ekki verið þarna. Það er eitthvað sem við getum lært af til lengri tíma. Ég veit að það er mikil vinna í gangi með það hjá almannavörnum og öllum þeim sem þar um véla að reyna að meta það hvernig við myndum bregðast við á öðrum stöðum. Við erum með þessi kerfi hér á svæðinu, Reykjaneskerfið, Svartsengi, Fagradalsfjall, Krýsuvíkurkerfið, Brennisteinsfjallakerfið og svo erum við með Hengilinn sem er megineldstöð sem tengist þessu kerfi líka. Þar nálægt erum við með heilmikla innviði sem eru orkuver, virkjanir.

Þetta er bara svolítið staðan. Við Íslendingar búum við það að náttúran lætur mikið á sér kræla. Ég ætla ekki að ganga svo langt eins og hefur verið gert sums staðar að halda því fram að það hefði verið hægt að sjá þetta alveg óskaplega mikið fyrir. Það hljóta að vera alltaf stórir óvissuþættir í því þegar við erum að reyna að meta náttúruvá hérna á Íslandi. En mig langar samt að nefna svona áður en ég lýk máli mínu og árétta það með svona smáaðdraganda að því, að ríkisstjórnin ekkert öfundsverð af því að koma til móts við alla sem eiga hagsmuna að gæta í Grindavík, hvort sem það er í gegnum íbúðarhúsnæði eða atvinnustarfsemi. En það var þannig að hópur eigenda fyrirtækja, lítilla og meðalstórra fyrirtækja, kom til okkar og átti fund með þingflokki Viðreisnar fyrir allmörgum vikum síðan og þar var verið að tala um að það væri því miður þannig að óvissan væri alger. Menn sæju fyrir sér að það væri ekki lífvænlegt fyrir þessi fyrirtæki, ofur einfaldlega vegna þess að það er búið að banna fólki að vera þarna í bænum og þar með eru viðskiptin farin og miklar hömlur á atvinnustarfsemi. Þetta fólk var í alls konar stöðu með fyrirtækin sín. Sumir áttu húsnæðið sitt, aðrir voru að leigja húsnæði, menn voru búnir að fjárfesta mismikið í atvinnustarfseminni en allt var þetta fólk sem var búið að leggja hjarta sitt og sál í það að byggja upp einhvers konar rekstur. Þarna var mikið ákall um að þessi hópur fengi einhver svör og það hefur því miður gengið hægt. Ég veit auðvitað að menn hafa verið að reyna og við erum að hluta til að tala um það hér í þessu máli og höfum verið að tala um stuðning til rekstraraðila í Grindavíkurbæ. Ég rak augun í það á mbl.is í dag þar sem blaðamaður Morgunblaðsins er að tala við Grindvíkinga. Hér er t.d. verið að tala við einn atvinnurekanda í Grindavík sem segir stöðuna erfiða fyrir atvinnurekendur í bæjarfélaginu og að það þurfi að koma betur til móts við atvinnurekendur sem berjast í bökkum. Hérna er rætt við Ómar Davíð Ólafsson sem er verslunareigandi í Grindavík. Hann talar um að fyrirtæki sem starfa við ferðaþjónustu í Grindavík kalli eftir aðgerðum, en þau hafa öll verið meira og minna lokuð. Ég ætla að vitna hér í viðtal við Ómar:

„Fljótlegasta leiðin til að koma líflínu og súrefni til þeirra væri að opna inn í bæinn. Þá myndu þau hætta að kvarta,“ segir Ómar en bætir við: „Maður skilur það alveg, þau geta ekki haft opið.“

Auðvitað verðum við að hafa skilning á því að það er ekki hægt að hleypa fólki í hvaða aðstæður sem er og við verðum að treysta almannavörnum til að meta það með réttum hætti. En Ómar nefnir hérna líka, með leyfi forseta:

„Núna myndum við vilja hefja framkvæmdir í bænum, nýta góða veðrið og loka sprungum, gera bæinn öruggan og opna hann.“

Þetta opnar einmitt á þessa óþægilegu spurningu sem hangir yfir okkur öllum: Hversu margir treysta sér að flytja til baka? Hversu öruggur verður bærinn fyrir börn? Við höfum heyrt mikið í barnafólki sem kannski treystir sér illa með sérstaklega yngri börnin til baka vegna þess að þarna eru jú miklar sprungur og við vitum ekki alveg nákvæmlega hvernig þetta allt saman lítur út.

Þetta er eitt dæmi um viðtal við atvinnurekanda í Grindavík. Við vonum að það rætist vel úr þessu öllu og ég árétta það sem ég segi: Það er ekki auðvelt að hanna þessar aðgerðir þannig að allir verði sáttir. Kannski er það ómögulegt. En ég ætla að árétta það sem ég sagði hérna í upphafi að þegar ríkið tekur þá ákvörðun, skiljanlega, að það sé ekki hægt að búa í heilu bæjarfélagi og það sé ekki hægt að vera með atvinnurekstur í heilu bæjarfélagi, þá á fólkið sem verður fyrir skaða út af því mjög mikinn rétt á að fá tjón sitt að einhverju leyti bætt. Er það dýrt? Já, það getur verið mjög dýrt. En þessi réttur hlýtur að vera mjög ríkur því að þetta fólk, bæði það sem hefur valið sér búsetu í bænum og það sem valdi að stofna fyrirtæki í bænum, gat ekki gert ráð fyrir því að eitthvað svona lagað myndi gerast. Við erum þarna með sveitarfélag þar sem ríkisvaldið er með umsvif, þar sem sveitarfélagið sjálft er með umsvif, þetta er einfaldlega samþykkt svæði til búsetu og þar af leiðandi, þegar þeim grundvelli er kippt undan fólki, þá hljótum við að hlusta eftir því þegar það vill fá tjón sitt bætt með einhverjum hætti. Hvort hægt sé að bæta öllum allt tjón efast ég reyndar um, en ég hef það svona á tilfinningunni, hafandi fylgst með umræðunni núna undanfarna mánuði, að það væri kannski hægt að gera betur heldur en hefur verið gert. En ég tek það þó fram: Það er ekki auðvelt að hanna hér stuðningsaðgerðir bæði fyrir íbúa og fyrirtæki þannig að allir verði sáttir.