154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[20:53]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að gefa hv. þingmanni rétt fyrir svarið vegna þess að einmitt svona er birtingarmyndin þegar mjög ólíkir flokkar setjast í ríkisstjórn, það verður einhvers konar fálmkennd kyrrstaða. Hv. þingmaður kom einnig inn á atvinnulífið í Grindavík, ekki síst smáaðila. Nú er staðan bara sú að það verða hamfarir, fólk neyðist til að flytja úr bænum og í kjölfarið greiðir beinlínis ríkið fólki fyrir að selja eignir sínar og flytja úr bænum og kúnnahóparnir fara. Maður skyldi þá ætla að það myndi myndast einhver réttmæt krafa á að atvinnulífinu verði komið til aðstoðar. Það liggur fyrir að eignir sem enginn hefur lögheimili í og eignir sem lögaðilar eiga eru svona sirka upp á 14 milljarða. (Forseti hringir.) Nú þegar liggur fyrir að heildarupphæðin í allri þessari aðgerð stefnir í 100 milljarða, finnst ekki hv. þingmanni sérkennilegt að menn skuli ekki skoða það af alvöru að mæta þessum hópum líka?