154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[20:57]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir þetta. Núna er það þannig að í víðu myndinni sem við höfum verið að ræða hérna höfum við verið svolítið upptekin af því, og eðlilega, hvernig við eigum að fjármagna þessi miklu útgjöld og hvernig við eigum að bregðast við þannig að áhrifin verði ekki of mikil á vexti og verðbólgu. Kemur það mér á óvart að það vanti strax meiri fjármuni inn í Þórkötlu? Þetta segir mér þá sögu að menn sem fóru af stað í verkefnið hafi einfaldlega vanmetið upphæðina, sem er pínu skrýtið vegna þess að það er ákveðinn fasti í upphæðunum þarna sem við hefðum átt að geta gert okkur grein fyrir. Það getur alveg verið að menn geri ráð fyrir því að eitthvað eigi að kosta 25 milljarða eða hvað það er og síðan reynist upphæðin fara upp í 37 milljarða og þá þurfi með einhverjum hætti að bregðast við því. Mér finnst það í sjálfu sér ekkert endilega að vera stóra málið. Ég ætla að játa það að ég þekki ekki fínni blæbrigðin þegar kemur að þessu með náttúruhamfaratrygginguna. Sá sjóður er auðvitað hugsaður til þess að mæta því þegar það verður eitthvert altjón á eignum, ef ég skil það rétt, þegar um náttúruhamfarir er að ræða. Samspil þess við uppkaupin almennt þekki ég ekki alveg nákvæmlega. Mér finnst þó að við þurfum að hafa það í huga að þarna hefur orðið alveg gríðarlega mikið tjón og eins og ég nefndi í minni ræðu finnst mér bara út frá öllum sanngirnissjónarmiðum, algerlega óháð allri lögfræði, algerlega óháð öllu regluverki, að við sem einstaklingar hér á þingi, pólitíkusar, berum skyldu til að taka almennilega utan um fólkið, jafnvel þótt það kunni að vera dýrt. Hvort það hafi verið eitthvert vanmat í því upphaflega þegar menn fóru af stað með Þórkötlu má vel vera. Það er þá verið að bregðast við því hér með einhverjum hætti. (Forseti hringir.) Aðalatriðið er að fólkið fái úrlausn sinna mála.