154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[21:02]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hafa komið að einu af mínum uppáhaldsumræðuefnum, miðilsgáfu. Það er ekki hægt að sjá allt fyrir, sagði hv. þingmaður, og það er svo sem satt og rétt ef við búum ekki yfir einhverjum ofur mannlegum hæfileikum til að sjá inn í framtíðina. En í þessu máli þá þurfti ekkert miðilsgáfu til að sjá hvernig myndi fara. Við áttum hér mikla umræðu í síðustu viku um framlengingu á úrræðum fyrir Grindvíkinga. Hvert einasta orð sem sagt var hér í sal hefur verið staðfest með umsögnum í þeim málum. Hér töluðum við um mikilvægi þess að koma til móts við fyrirtækjaeigendur sem vilja losa eigið fé út úr eignum í Grindavík til að geta haldið rekstri áfram annars staðar. Það hafa hrúgast inn umsagnir frá fólki í þeirri stöðu, frá litlum fjölskyldufyrirtækjum sem vilja ekkert fá rekstrarstuðning eða pening frá ríkinu til að niðurgreiða laun starfsfólks. Þau vilja bara geta losað það sem er bundið í eigninni, sett sig niður annars staðar og haldið hraustum rekstri áfram. Við erum líka búin að fá umsagnir frá fólki sem er í þeirri stöðu að eiga eignir sem þau eru ekki með skráð lögheimili í í Grindavík. Það er fólk sem var hreinlega sett fram breytingartillaga til að ná utan um hér á sínum tíma af hv. þm. Guðbrandi Einarssyni og hefur ítrekað verið bent á. Umræðurnar hér í byrjun árs voru að það yrði unnið í málum þess hóps seinna, að auðvitað næðum við ekki utan um alla í fyrstu útgáfu af lögunum en þau yrðu unnin betur síðar. Svo eru þau bara framlengd. Það eru engar efnisbreytingar. Af hverju er þörfum fólks ekki mætt þegar það liggur fyrir hverjar þær eru? Það þarf ekki miðilsgáfu til. Það þarf bara sæmilega opin eyru.