154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[21:35]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst ætla ég nú að passa mig á að vera ekki að skreyta mig með stolnum fjöðrum vegna þess að samanburðurinn við hliðstæðuna í skattalögum, að einstaklingur sem er með tvær eignir í útleigu teljist ekki vera í atvinnurekstri samkvæmt skattalögum, kemur ósköp einfaldlega fram í umsögn frá Grindvíkingi. Bryndís Gunnlaugsdóttir Hólm benti á það í umsögn sem hún skilaði við málið sem við ræddum í síðustu viku og hefur væntanlega bent á þetta á fyrri stigum líka af því að hún er ein af þeim Grindvíkingum sem hafa aftur og aftur hvatt stjórnvöld til þess að — ég veit ekki hvort það eigi einu sinni að kalla það að gera meira heldur bara að gera hluti sem ná betur utan um samfélagið, vegna þess að allt kostar þetta sitt. Það kostar sitt að að greiða niður launakostnað til að viðhalda ráðningarsambandi. Það kostar sitt að bæta tekjufall fyrirtækja. Þeim peningum væri mögulega betur varið í að leysa fyrirtækin út úr eiginfjárgildrunni sem þau eru í, föst í steinsteypu í Grindavík með öll sín framleiðslutæki þar, fjárfesting í því að hjálpa þeim að koma undir sig fótunum annars staðar. Það gæti leyst ríkið undan þeim kostnaði sem felst í því að halda fólki í ráðningarsambandi eða tryggja laun til fólks sem ekki getur starfað í Grindavík. Þannig að mögulega þyrfti ekki einu sinni að auka ríkisútgjöld sérstaklega mikið til að ná utan um þá hópa sem eftir eru. En síðan þarf náttúrlega bara að horfast í augu við það að annaðhvort ætla stjórnarliðar að gera allt sem þau geta til að standa með Grindavík, eins og þau segja gjarnan, eða bara að halda þessu plani sem við erum með hérna fyrir framan okkur. En þá þurfa þau bara að vera heiðarleg og segja að þau ætli ekki að gera allt sem þau geta. Þau ætli ekki að ná utan um lítil fyrirtæki sem eru föst og þau ætli ekki að ná utan um fólk sem á fleiri en eina eign eða á eina eign sem það er ekki með lögheimili í. (Forseti hringir.) Það fólk fær bara að sigla sinn sjó ef stjórnarliðar halda þessu áfram.