154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[21:37]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er alveg hárrétt athugasemd hjá hv. þingmanni og ég þakka andsvarið. Ég held að það sé ekkert hægt að lýsa því öðruvísi en að það er hálfundarlegt hversu treg ríkisstjórnin hefur verið til þess að opna á leiðir, fjölbreyttari leiðir við flóknari vanda en stjórnvöld horfðu á í heimsfaraldrinum hér forðum til að þessir hópar sem falla á milli skips og bryggju eigi sér viðspyrnu von. Það hafa komið inn til fjölda þingmanna, og eflaust allra að einhverju marki, bæði þingmanna stjórnarflokka og stjórnarandstöðu, dæmi þar sem verið er að lýsa svo ótrúlega ósanngjarnri stöðu sem teiknast upp vegna þessara kassalöguðu lausna sem formaðar hafa verið. Skilaboðin nú um stundir virðast að miklu leyti vera: Heyrið, þið sem voruð svo vitlaus að standa í fyrirtækjarekstri, þið verðið að bjarga ykkur, sjá um ykkur sjálf að miklu leyti þó að áhrifin sem þið eruð að verða fyrir og takast á við séu til komin að sumu leyti vegna ákvarðana stjórnvalda. Það er ekki boðlegt svar að segja: Heyrðu, sérðu ekki gosið þarna? Við ráðum ekkert við þetta, við erum að gera allt sem við getum. Það er nefnilega ákvörðun að láta þá hópa, sem féllu milli skips og bryggju í fyrstu atrennu en fengu ádrátt um að það yrði litið til með þessum flóknari dæmum síðar, liggja í óbreyttri stöðu.