154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[22:07]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Varðandi þetta með lögheimili og fólkið sem er að falla á milli skips og bryggju þá var í upphafi mjög skýrt sagt að markmiðið með uppkaupum væri að tryggja það að Grindvíkingar gætu tryggt sér þak yfir höfuðið. Því miður eru margir að falla á milli skips og bryggju vegna þessara reglna, fólk sem hafði kannski keypt húsnæði fyrir börnin sín eða eitthvað slíkt og núna sitja börnin upp með aukahús sem er ekki hægt að selja til Þórkötlu.

Varðandi það að taka peningana út úr náttúruhamfaratryggingum þá er það náttúrlega ákveðin bókhaldsbrella vegna þess að ef peningurinn hefði verið tekinn annars staðar frá, úr varasjóði eða tekið lán eða eitthvað svoleiðis, þá liti það verr út fyrir fjárhagsstöðu ríkisins. Það er hins vegar mjög flókið hvernig uppbyggingin er á tryggingunum hjá náttúruhamfaratryggingum. Fyrstu 10 milljarðarnir af skemmdum eða tjóni í hverjum atburði eru alltaf „coveraðir“ af náttúruhamfaratryggingunum sjálfum. Síðan þar fyrir ofan eru, ef ég man rétt, allt að 35 milljarðar sem falla undir endurtryggingarnar og svo taka sjóðir náttúruhamfaratryggingar aftur við. Þannig að ef við fáum t.d. stóran sterkan jarðskjálfta á Reykjavíkursvæðinu þar sem yrðu miklar skemmdir á mörgum húsum þá væru ekki til nægir peningar í sjóðum náttúruhamfaratrygginga til þess að tækla það vandamál. Og það er þannig að náttúruhamfaratryggingar þurfa að hafa, ef ég man rétt, 10% af virði allra húsa á landinu í sínum sjóðum og núna eru þau með enn minna en þau þurftu áður.