154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[22:09]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Góðar bókhaldsbrellur geta verið mjög góðar að mörgu leyti en það er spurning um kostnaðinn, hvort það sé kostnaður fyrir náttúruhamfaratryggingar að verið sé að ráðstafa 15 milljörðum kr. úr sjóðum náttúruhamfaratrygginga. Jafnvel má spyrja, þar sem þetta fer í hlutafjáraukningu, hvort fulltrúar náttúruhamfaratrygginga séu þá með fulltrúa í stjórn Þórkötlu. Ég sé ekkert að því að gera þetta en það er spurning um áhrifin. Hefur þetta einhver áhrif á starfsemi náttúruhamfaratrygginga? Eykur þetta endurtryggingarkostnað, fjármögnun þeirra, eða eru þetta peningar sem lágu á lausu þar, eins og þegar 10 milljarðar komu frá Landsvirkjun til að fjármagna kjarasamningana? Það var spurningin.

En þar sem ég á smátíma eftir þá langar mig að spyrja hv. þingmann um lögheimilisskráninguna. Nú höfum við notað aðferðafræði Covid í stuðningsaðgerðunum fyrir Grindavík, en þetta eru jarðhræringar og þar er eignatjón. Það varð ekki eignatjón í Covid. Þetta virðist bara ná til þess fólks sem á lögheimili og virðist að lærdómskúrfan sé engin þegar verið er að lengja í rekstrarstuðningnum, húsnæðisstuðningnum og líka stuðningi vegna launagreiðslna, til að breyta þeim svo þær henti betur þeim hópi sem fellur milli skips og bryggju. Og að bætur á eignatjóni sem er að verða þarna nái til allra þeirra eigna, ekki bara þeirra sem búa í Grindavík og eru með lögheimili þar heldur líka þeirra sem eiga kannski eignir, þeir geti notað þessar eignir til að veðsetja og kaupa húsnæði og annað slíkt annars staðar. Það finnst mér vera áhugavert efni. Hver er skoðun þingmannsins hvað það varðar? Ég er á því að við eigum að reyna að bæta allt eignatjón sem er þarna, ekki bara þeirra sem eiga lögheimili þarna (Forseti hringir.) og líka að sjálfsögðu rekstrarkostnað, ekki bara tekjufallið í fyrra heldur líka framtíðartekjur eins og í sæeyramálinu.