154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

breytingar á ýmsum lögum vegna eftirlits og leyfisveitinga Orkustofnunar.

898. mál
[22:43]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Herra forseti. Ég finn mig knúinn til að taka til máls um þetta mál og lýsa yfir stuðningi við það. Með þessu frumvarpi er mælt fyrir um heimild til töku þjónustugjalda vegna vinnu Orkustofnunar við afgreiðslu leyfisumsókna vegna auðlindanýtingar, afgreiðslu leyfa og eftirlits með þeim. Tilefnið er auðvitað það að Orkustofnun hefur skort fullnægjandi fjármögnun og mönnun til að geta sinnt þessum verkum og þar er auðvitað við fjárveitingavaldið hér á Alþingi að sakast. Alþingi hefur með þessu tafið fyrir leyfisumsóknum, tafið leyfisveitingaferli vegna virkjana, m.a. með því að vanfjármagna Orkustofnun, og á þessu bera stjórnarflokkarnir þrír höfuðábyrgð.

Þyngstu ábyrgðina ber auðvitað Sjálfstæðisflokkurinn sem hefur farið með orkumál, með ráðuneyti orkumála, alveg frá árinu 2013. Árið 2013 voru stöðugildi Orkustofnunar 36. Í dag eru þau, samkvæmt nýjustu tiltæku gögnum, sem ég held að nái til ársins 2022, aðeins 33 þannig að þeim hefur fækkað. Starfsmönnum hefur fækkað hjá stofnuninni þrátt fyrir að verkefnum fjölgi og þau verði flóknari og krefjist meiri og meiri vinnu. Þetta hefur gerst á vakt þess stjórnmálaflokks sem nú gefur sig út fyrir að vera alveg ofboðslega annt um að ráðist verði í aukna orkuöflun á Íslandi. Hvað þýðir þessi vanfjármögnun Orkustofnunar? Jú, það þýðir einfaldlega að það er verið að leggja stein í götu leyfisveitinga sem aftur bitnar svo á verðmætasköpun og atvinnuuppbyggingu, bitnar á orkuskiptum og getur grafið undan orkuöryggi. Þetta er staðan.

Þegar Samtök iðnaðarins komu á fund atvinnuveganefndar til að fjalla um þetta mál óskaði ég eftir því að við fengjum senda samantekt sem þar hafði verið unnin á málsmeðferðartíma hjá Orkustofnun þar sem í raun er fjallað um málsmeðferðartímann og hann tiltekinn fyrir nær öll verkefni og öll leyfi sem gefin hafa verið út á undanförnum tíu árum eða svo. Og höfum í huga, áður en ég fer aðeins yfir þessi dæmi, að nú þegar er mælt fyrir um hámarksmálsmeðferðartíma vegna útgáfu virkjunarleyfa í reglugerð um framkvæmd raforkulaga. Samkvæmt henni á ákvörðun Orkustofnunar, um synjun eða veitingu leyfis, að vera tekin innan tveggja mánaða frá því að öll gögn hafa borist frá umsækjanda og allar umsagnir og athugasemdir liggja fyrir. Skoðum bara nokkur dæmi. Hér er verkefni HS Orku, breyting á virkjunarleyfi í Svartsengi árið 2017, þar sem verið var að óska eftir því að auka framleiðslugetuna, afl virkjunarinnar, úr 74,5 mW í 75 mW. Það tók Orkustofnun tíu mánuði að samþykkja þessa umsókn. Landsvirkjun, gufustöð í Bjarnarflagi, sótt um leyfi 2018. Þar var málsmeðferðartíminn 14 mánuðir. Svo er það auðvitað Hvammsvirkjun þar sem leyfið hefur reyndar verið ógilt. Það tók 18 mánuði að veita leyfið, 18 mánaða málsmeðferðartími. Þessi langi málsmeðferðartími á, eins og ég fór yfir, rætur í því að Orkustofnun hefur verið vanfjármögnuð. Það er afleiðingin af ákvörðunum sem eru teknar hér á Alþingi. Og þetta hefur gerst meðan Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með bæði fjármálaráðuneytið og ráðuneyti orkumála.

Af því að við erum að tala um langan málsmeðferðartíma hjá Orkustofnun get ég eiginlega ekki annað en minnst á mál sem var nú bara í fréttum í síðustu viku þar sem umboðsmaður Alþingis hafði einmitt sent stofnuninni bréf vegna kvörtunar sem tók meira en tvö ár að afgreiða. Þetta er kvörtun sem hafði að gera með fyrirkomulag hleðslubúnaðar í fjölbýlishúsi. Það kemur fram í bréfi umboðsmanns, sem var sent nú í maí, að þótt ákveðnar tafir á afgreiðslu mála vegna málafjölda og starfsálags kunni að vera réttlætanlegar leiði það ekki til þess að svo eigi við um margra mánaða eða áralangar óútskýrðar tafir.

Tilvitnun úr því bréfi hefst, með leyfi forseta:

„Í því samhengi bendi ég einnig á að sé raunin sú að stjórnvöld telji sig ekki geta framkvæmt þau verkefni sem því eru falin innan lögmælts frests eða að öðru leyti í samræmi við reglur stjórnsýsluréttar um málshraða verður að gera þá kröfu að það geri ráðstafanir til að úr verði bætt.“

Þetta er mjög alvarlegt mál þegar grundvallarstofnunum, hér á sviði orkumála, er ekki búin þannig umgjörð og þannig starfsumhverfi að þær geti leyst úr málum á eðlilegum hraða. Auðvitað hefði átt að grípa inn í þetta fyrir löngu og tryggja Orkustofnun aukið fjármagn og aukinn mannafla. Það er auðvitað eðlilegast að gera það bara í fjárlögum hverju sinni. En hér er farin önnur leið, sem er líka ágæt fyrir sinn hatt, a.m.k. sem skref í rétta átt, að gefa stofnuninni heimild til að rukka þjónustugjöld þannig að hún hafi þá að einhverju leyti fjármagn í samræmi við þau verkefni sem hún er að sinna á hverjum tíma. En ég gæti nú trúað því að þá þyrftum við líka að styrkja stofnunina enn frekar. Það er ekki bara nóg að renna saman stofnunum eins og stendur til að gera með Umhverfisstofnun og Orkustofnun. Það eitt og sér er ekkert endilega til þess fallið að hraða málsmeðferð ef ekki er líka gripið til aðgerða, m.a. með því að fjölga stöðugildum þannig að þessi verkefni og þessi leyfisveitingaferli dragist ekki úr hófi fram.

Mig langar líka að nýta tækifærið í þessu máli til að fjalla aðeins á almennari nótum um stöðu orkuöflunarmála. Það hefur ríkt ákveðin kyrrstaða í þessum málum á undanförnum árum og það birtist t.d. í því að það liðu níu ár án þess að samþykkt væri þingsályktun um rammaáætlun á Alþingi. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins tala gjarnan eins og rammaáætlun sé alveg ómögulegt fyrirkomulag og valdi miklum töfum. Ég held að það sé kannski stærra vandamál þar hvernig stjórnmálamenn umgangast þennan lagaramma. Það er t.d. algjörlega skýrt í lögum um rammaáætlun að ráðherra á að leggja fram tillögu að röðun virkjunarkosta á fjögurra ára fresti. Það má lesa út úr lögunum að þetta er gert með það fyrir augum að Alþingi samþykki á fjögurra ára fresti nýja rammaáætlun og að stjórnmálamenn hafi kjark til að taka ákvörðun um það hvar megi virkja og hvaða svæði eigi að vernda og hvar þurfi að rannsaka aðstæður og málavexti betur. Þetta er ákvæði sem hefur í raun verið hunsað þegar níu ár líða á milli þess að ný rammaáætlun er samþykkt.

Þessi kyrrstaða sem ég nefndi birtist líka í því að frá því að samsteypustjórn Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Vinstri grænna tók til starfa haustið 2017 hafa ekki hafist framkvæmdir við neina nýja virkjun með uppsett rafafl 10 MW eða meira og ekkert gilt virkjunarleyfi verið gefið út vegna nýrrar virkjunar. Þetta er auðvitað, sérstaklega þetta með tafirnar á afgreiðslu rammaáætlunar, mjög skaðlegt í ljósi þess hvað það tekur langan tíma að koma nýjum virkjunum í gagnið. Og það er ekki einhverjum náttúruverndarsamtökum að kenna eins og t.d. hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra vill meina. Það er bara fyrst og fremst vegna þess að við höfum ekki komið okkur upp nógu skilvirku leyfisveitingaferli. Það er allt of mikið um tvíverknað. Það skortir samfellu. Það hefur margsinnis verið bent á leiðir til að gera þetta ferli skilvirkara. Orkustofnun hefur sjálf bent á leiðir sem hægt væri að fara án þess að gefa nokkurn afslátt af kröfum um vandað umhverfismat og eðlilegt almenningssamráð í anda þeirra þjóðréttarlegu skuldbindinga sem við höfum undirgengist. En á þetta hefur eiginlega ekkert verið hlustað.

Mér fannst það nú svolítið hlægilegt, eftir allt þetta tal á þessu kjörtímabili, um að nú þurfi aldeilis að láta verkin tala í þessum efnum, að þá birtist svolítið athyglisverð færsla eða innlegg á samráðsgáttinni bara fyrir örfáum vikum nú þegar kjörtímabilinu er eiginlega að ljúka, einhvers konar óljós áform frá ráðherra um að einfalda leyfisveitingaferlið þar sem óskað er eftir hugmyndum héðan og þaðan eins og ekki liggi fyrir neinar hugmyndir, eins og ekkert hafi verið lagt til og eins og við séum bara á algerum byrjunarreit. Þetta lýsir algjörum skorti á hugmyndaflugi og stefnu. Maður veltir því auðvitað fyrir sér hvað fólkið sem talar um mikilvægi þess að ráðast í aukna orkuöflun hefur eiginlega verið að dandalast allan þennan tíma í stjórnkerfinu.

Svo er það auðvitað það að ekki hefur tekist að skapa nægilega sátt um það hvernig tekjur af orkuvinnslu eigi að skiptast. Það á m.a. við um vindorkuna. Það eru mál komin hingað inn í þingið um vindorkunýtingu og ákveðnar leiðir til að taka vindorkukosti út fyrir rammaáætlun og flýta þeim. En um leið skortir enn upp á að settar séu fram einhverjar áætlanir um að skipta tekjunum með sanngjarnari hætti. Við sjáum t.d. bara í Skeiða- og Gnúpverjahreppi þar sem Búrfellslundur hefur tafist vegna þessara atriða, vegna deilna um það hvernig tekjurnar skuli skiptast. Þarna er líka ákveðið samspil milli tekna til sveitarfélaga vegna virkjana og svo vegna greiðslna úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem þarf að huga að. En ég held að í grunninn hafi samt sveitarstjórnarfólkið bara alveg rétt fyrir sér. Auðvitað er það þannig, þegar verið er að reisa t.d. vindmyllu einhvers staðar, að þá ættu tekjurnar að skila sér miklu meira til nærsamfélagsins en gerist í dag.

Annars vil ég bara segja: Ég held að fólkið í landinu hafi fengið nóg af upphrópunum og einhverjum pólitískum leikjum þegar kemur að orkumálum, fólk um allt land og sérstaklega þar sem orkuskorturinn, sem stundum er talað um, birtist, og sé einfaldlega að bíða eftir lausnum og að stjórnmálaflokkar tali skýrt um það hvar þeir standa.

Við Samfylkingunni kynntum nýlega stefnuplagg sem fjallar um orkumál og samgöngumál sérstaklega en líka um atvinnumál í víðari skilningi og atvinnustefnu fyrir Ísland. Þar setjum við m.a. fram eins konar áætlun um það hvernig hægt væri að koma skikki á þennan málaflokk og skapa til framtíðar betra jafnvægi milli orkunýtingar og náttúruverndar. Við teljum að það sé raunhæft, fyrst og fremst út frá kostum sem nú þegar eru í nýtingarflokki rammaáætlunar, að auka ársframleiðslu á raforku um 5 TWst á næstu tíu árum. Það er í ágætu samræmi við orkuspár sem hafa komið fram bæði af hálfu Orkustofnunar og Landsnets þar sem gert er ráð fyrir góðum gangi í orkuskiptum á landi og hafi, þar sem gert er ráð fyrir ákveðnum vexti á raforkunýtingu heimila og smærri fyrirtækja í takti við fólksfjölgun og svo mjög hóflegri aukningu til bæði núverandi og nýrra stórnotenda. En til þess að þetta gangi upp þarf að fjölga aðeins virkjunarkostum í nýtingarflokki rammaáætlunar og einfaldlega afgreiða rammaáætlun oftar en gert hefur verið, eins og ég fór yfir áðan. Auk þess þarf að einfalda og flýta leyfisveitingaferli vegna nýrra virkjana án þess þó að slá af kröfum um mat á umhverfisáhrifum og nauðsynlegt samráð við almenning.

Meðal þess sem við leggjum til er að stofnanir verði skyldaðar til að setja í forgang umsóknir um leyfi vegna virkjunarkosta sem hafa verið settir í nýtingarflokk rammaáætlunar. Þá fái umsóknir vegna þessara virkjunarkosta ákveðinn forgang í stjórnkerfinu. Við leggjum líka til að tímafrestir — ég fór hér áðan yfir tímafresti sem eru í reglugerð sem lúta að leyfisveitingum hjá Orkustofnun — verði bundnir í lög og svo einmitt það sem verið er að leggja til í þessu frumvarpi, og við höfum talað fyrir, að innheimt verði þjónustugjöld af framkvæmdaraðilum og svo loks að við náum betri samfellu í þessu ferli öllu eftir sameiningu þessara stofnana, Umhverfisstofnunar og Orkustofnunar, þar sem m.a. verður notuð rafræn gagnagátt; að þessi nýja stofnun taki að einhverju leyti meiri stjórn á ferlinu og leiðbeini aðilum þannig að ekki líði langur tími á milli, um leið og dregið verði úr pappírsvinnu sem er allt of mikil enn þá þegar kemur að þessum leyfisveitingum. Þetta eru allt saman lykilatriði til að binda enda á áralangt framtaksleysi í orkumálum.

Eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar fagna ég, og við, því skrefi sem er tekið með þessu frumvarpi. Mig grunar þó að þessi heimild til töku þjónustugjalda muni ekki duga ein og sér til að gera Orkustofnun, eða eftir atvikum Umhverfis- og orkustofnun eftir sameininguna, kleift að afgreiða leyfisumsóknir á skikkanlegum tíma og að það geti þurft að styrkja stofnunina umtalsvert meira í fjárlögum.